Færsluflokkur: Vinnumarkaðurinn í landi

SA, samtök án framtíðarsýnar. - Grein frá 2015

Enn á ný stöndum við frammi fyrir því við endurnýjun kjarasamninga að vera með viðsemjendur sem eru hugmyndfræðilega gjaldþrota. Þar hafa menn enga hugmyndafræði eða kjark að stíga þau skref sem þarf til að gera breytingar í launakerfum til að ná upp ásættanlegum dagvinnulaunum.  Við stöndum frammi fyrir sömu úreltu hagfræðifrösunum og hugmyndaleysinu og þegar við vorum plötuð í aðfarasamninginn og 2,8% launahækkunina. Um leið og búið var að skrifa undir kom það í ljós að SA hafði ekki neinar hugmyndir um breytingar á launaumhverfi ólíkra hópa og því fór sem fór.
Nýjasta útspilið sem var sett fram í örvæntingu og með miðstýringaralræðið að leiðarljósi, er móðgun við okkur. Við höfum ítrekað bent á að þær breytingar sem víða er hægt að gera á launakerfum ólíkra hópa, verða ekki útfærðar með stöðnuðum hagfræðingum eða lögfræðingum.  Þeir sem reka fyrirtækin verða að koma beint að þessum viðræðum, þeir þekkja best vandamálin og lausnirnar sem hægt er að vinna út frá til að gera breytingar.

Innantóma framsetningin er sett fram í nafni norræns vinnumarkaðsmódels. Taka á afmarkaðan lið úr kjarasamningum frá Norðurlöndunum sem hentar SA og gera yfirvinnu ódýrari án þess að dagvinnulaun hækki verulega. Þetta er leið sem dæmd er til að mistakast ef halda á áfram með dagvinnulaun sem ekki er hægt að lifa á.
Ætlum við okkur í framtíðinni að komast inn í vinnumarkaðsfyrirkomulag eins og er á Norðurlöndunum verðum við að taka allt kerfið upp, ekki bara eina setningu sem hentar.

Með framsetningu SA erum við að fara að spóla föst í sama hjólfarinu og við höfum gert í áratugi.

Við höfum ekkert val, við verðum að fara með vinnustöðvanir í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum og reyna að ná fram okkar tillögum um breytingar á launakerfum.

Með staðnaðri hugmyndafræði SA erum við ekki að fara að leggja grunn að norrænu vinnumarkaðsmódeli þar sem náðst hefur ótrúlegur árangur í að auka kaupmátt með litlum launahækkunum.

Við hjá VM viljum út úr því staðnaða launaumhverfi sem við erum í og höfum hugmyndafræðina og lausnirnar til að stíg vitræn skref inn í framtíðina.
Sú staða sem komin er upp í dag og við þurfum að horfast í augu við skrifa ég eitthundrað prósent á SA.
Við höfum séð hvernig staðnaður kommúnismi fór með margar þjóðir í gjaldþrot. Hugmyndafræði SA er að leiða okkur á þann stað ef ekki verður rótæk breyting á stefnu þeirra samtaka.

 


Hver ákvað að láta VM sleikja botninn ? - Grein frá 2015

Það er þrautinni þyngri að átta sig á því hvaða launastefna er ríkjandi á íslenskum vinnumarkaði. Enn á eftir að ganga frá fjölmörgum samningum og vinnuveitendur virðast flokka viðsemjendur sína eftir einhverri óskilgreindri hentistefnu.

Álfyrirtækin fyrir utan Straumsvík eru með sínar eigin leiðir í kjaramálum. Önnur fyrirtæki sem ekki flokkast beint undir hentistefnu Samtaka atvinnulífsins fá frjálsar hendur varðandi gerð sinna kjarasamninga. Þannig fékk fiskvinnslan frítt spil í sínum kjaraviðræðum, svo dæmi sé tekið.

Úrskurður gerðardóms um laun 18 stéttarfélaga í Bandalagi háskólamanna og félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hlýtur að vera nýjasta viðmiðið fyrir VM og aðra hópa sem enn eru með lausa samninga.

Eingreiðsla, afturvirkni og hækkanir 22% til 32%

Prósentuhækkanir í tveggja ára samningi hjá BHM eru um 15%, auk eingreiðslu. Hjúkrunarfræðingar fá 25% til 28,5% hækkun í fjögurra ára samningi, auk eingreiðslu

Þá er afturvirkni í úrskurði gerðardóms um að hækkanirnar taki gildi frá því síðasti samningur rann út.

Það er athyglisvert að lesa hækkanir ólíkra hópa. Einnig innan þeirra félaga sem tóku samningsréttinn af t.d. iðnaðarmönnum með forsenduákvæðum, sem enginn veit í dag hver eru
Þar eru hækkanir frá 22% til 32% á samningstímanum.

14,4% til 18,8% til VM

Félagsmönnum VM er gert að taka almennum hækkunum, sem eru á bilinu 14,4 til 18,8% á samningstímanum, sem er til ársins 2019.

Hvaða sátt eða samkomulag var gert á vinnumarkaðnum um að félagsmenn VM eigi að sleikja botninn og dragast aftur úr í launum?

Ekki kannast ég við þá sátt.

Það liggur ljóst fyrir að SA mun af hörku reyna að þvinga okkur niður á lægsta þrep þeirra kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir á þessu ári.

Hvernig ætla menn að réttlæta og rökstyðja það að félagsmenn VM eigi að bera minnst úr býtum þegar hækkanir eru bornar saman við aðra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu.

Hver ákvað slíkt ?

Ég bara spyr.

Með félagskveðju,

Guðmundur Ragnarsson
formaður VM

 


Samhengi framleiðni og lágra dagvinnulauna. - Grein frá 2015

Aukin framleiðni, hagræðing eða hvað menn vilja kalla hugtakið, hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri og var ein af megináherslum nýafstaðins Iðnþings Samtaka Iðnaðarins. Í margumtalaðri skýrslu McKinsey er talað um 20% minni framleiðni en í þeim löndum sem við viljum bera okkur samann við. Í nýútkominni skýrslu Heildarsamtaka vinnumarkaðarins  í febrúar 2015 ´´ Í aðdraganda kjarasamninga,, er einnig komið inn á lélega framleiðni.
Ég sat Iðnþing Samtaka Iðnaðarins og þar var mikið talað um að auka framleiðni, en alltaf skautað framhjá því hvað veldur lélegri framlegð hjá okkur Íslendingum. Dagvinnulaun eru svo lág að engin getur lifað á þeim. Það framkallar hvata til að fá eftirvinnu svo hægt sé að hafa heildarlaun til að framfleyta sér. Enda er alltaf miðað við heildarlaun þegar verið er að vitna í laun.
Hafa Samtök atvinnurekenda virkilega ekki velt því fyrir sér að þessi mikla vinna okkar Íslendinga byggist á þörf fyrir hærri launum, ekki vegna hins margumtalaða dugnaðar eða það sé svona leiðinlegt heima hjá viðkomandi. Margar stéttir kalla á þá breytingu að auka framleiðni og hærri dagvinnulaun til að eiga líf eftir vinnu með fjölskyldum sínum.
Það er alltaf skautað framhjá því í allri umræðunni, að ef stytta á vinnutíma og auka framleiðni þá verða dagvinnulaunin að vera í samhengi við raunverulegan framfærslukostaða. Eitt af því sem skapar aukna framleiðni er meðal annars úthvílt og ferskt starfsfólk. Svoleiðis ástand skapast ekki hjá fyrirtækjum með lág dagvinnulaun. Ef ekki er boðið upp á yfirvinnu er einstaklingurinn í tveimur ef ekki þrem  störfum og er síþreyttur. 

Það er voða fínt að vera með öll þessi fínu hugtök og fara með þau fram þegar hentar. Ef hins vegar er einhver vilji til að ná árangri í atvinnulífinu um að auka framleiðni, þá verður það ekki gert nema með ásættanlegum dagvinnulaunum sem duga til framfærslu.
Reynum að einbeita okkur að kjarna málsins til að finna leiðir til aukinnar framleiðni, ekki vera með flotta frasa og skauta framhjá raunveruleikanum. Lág dagvinnulaun eru orsök bágrar stöðu okkar á þessu sviði, förum í það verkefni í komandi kjarasamningum að hækka dagvinnulaun og þá mun framleiðni aukast mjög hratt.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Kjarasamningur VM við SA felldur

Nú liggur fyrir niðurstaða kosninga um almennan kjarasamning VM við SA. Samningurinn var felldur með afgerandi hætti. Þátttakan var mjög góð miðað við kosningu um kjarasamning og niðurstaðan skýr.
Ef lesa á í það sem félagsmenn eru mest óánægðir með er það launaþróunartryggingin og lág dagvinnulaun.  Að samningsréttur sé tekinn af sjálfstæðum stéttarfélögum af öðrum stéttarfélögum  þar sem þau láta hækkun lægstu launa ganga fyrir á kostnað þeirra sem eru fyrir ofan í launum er einnig gjörningur sem félagsmenn VM eru mjög ósáttir við. Þessi sjónarmið komu skýrt fram á fundum sem haldnir voru í tengslum við atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn.
Það eru allir sammála um að lágmarkslaun á Íslandi eru alltof lág, hinsvegar verður að vera ákveðið launabil og það verður að ákveða með sátt á milli aðila, ekki með valdi.

Samkomulag um ásættanleg laun

Í lok samningstímans áttu lágmarkstekjutryggingar og dagvinnutaxti iðnaðarmanna með sveinspróf og fimm ára starfsreynslu að fara úr 40% mun, niður í 29%.
Var einhver sátt um þetta?
Svarið er nei.

Það verður að finnast lausn í samfélaginu um að hér séu borguð ásættanleg dagvinnulaun sem fólk getur lifað af. Ekki vantar mælingarnar á auð íslenskt samfélags.

Aðför blandaðra stéttarfélaga

Það var undarlegt að sjá hvernig blönduðu stéttarfélögin með margar starfstéttir voru tilbúin að gera svona aðför að sínum eigin félagsmönnum og undirstrikar að ef iðnaðarmenn ætla að ná árangri í bættum kjörum þá verum við að koma á landsfélögum allra í viðkomandi starfsgreinum. Sundraðir út og suður erum við veikir eins og sýndi sig í samstarfi iðnaðarmanna.
Samningafundir í ágús.
Í samráði við Samtök atvinnulífsins munum við setjast að samningsborðinu aftur í byrjun ágúst, þar sem sumarleyfi mundu gera alla vinnu mjög ómarkvissa fram yfir verslunarmannahelgi.

Með félagskveðju,
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband