Hver bjó til þessa hagfræði? - Grein frá 2016

Alltaf þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum er rykið þurrkað af gömlu plötunni og hún spiluð, hækkun launa muni fara með hagkerfið í rúst með óðaverðbólgu. Ég held að þetta sé ekki rétt og hef reynt að finna samhengið í þessum málflutningi. Nú koma fram hagnaðartölur fyrirtækja, þar sem milljarðar renna í vasa eigenda. Bónusar í bankakerfinu kr. 900 milljónir, sem ég hef reyndar aldrei skilið í bankakerfi sem er bæði með axlabönd, belti og allt skothelt, engin áhætta. Fyrir hvað er verið að greiða bónusa þar?

Ef búið er til dæmi um fyrirtæki með fimmhundruð starfsmönnum sem hafa kr. 450.000 í mánaðarlaun hver. Fyrirtækið er í eigu 10 einstaklinga og þar starfa samtals 15 aðal- og millistjórnendur. Fyrirtækið skilar góðri afkomu með hagnað upp á fjóra milljarða og eigendur sem ekki starfa við fyrirtækið fá greiddan arð upp á tvo milljarða. Stjórnendur fá sína bónusa þó svo þeir séu á fínum launum.

Laun starfsfólks eru samtals 2,7 milljarðar á ári. Ef þau hækka um 5% eða 135 milljónir, sem er tveim prósentum yfir 3% viðmiði Seðlabanka Íslands, fer hér allt til fjandans.

Aðalstjórnendurnir fimm hafa 5 milljónir á mánuði í laun eða samtals 300 milljónir á ári og tíu  millistjórnendurnir eru með 2,5 milljónir á mánuði hver eða samtals 300 milljónir á ári. Stjórnendurnir 15 fá samtals 80 milljónir í bónusa á ári. Laun stjórnenda á ári eru auk bónusa samtals 680 milljónir. Ef laun og bónusar stjórnenda hækka um sömu prósentutölu og laun starfsmanna þá virðist það engin áhrif hafa.

Í töflunni má sjá hvernig þessi hækkun dreifist á starfsmenn, stjórnendur og hvað eigendur fá í arð á mánuði.   

              

  

Fjöldi

 

5% Hækkun

 

     Á ári

 

Á mánuði

         

Starfsmenn

 

500

 

135.000.000

 

270.000

 

22.500

Stjórnendur

 

15

 

34.000.000

 

2.266.667

 

347.727

         

Arður til   eigenda

 

10

   

2.000.000.000

 

16.666.667

         

22.500 kr. launahækkun starfsfólks setur allt á annan endann en um 350 þúsund kr. hækkun til stjórnenda og arðgreiðslur til eigenda hafa engin áhrif. Ef við förum að ráðum Seðlabankans og hækkum laun einungis um 3% eða 13.500 á mánuði og höldum greiðslum til eigenda og stjórnenda óbreyttum, þá er allt í lagi og engin verðbólguþrýstingur.

Þó ég sé að tala hér um eitt fyrirtæki þá gæti þetta alveg eins átt við atvinnugrein eða bara allt íslenska hagkerfið.
Þetta er ekkert flókið. Við erum alltaf með eitthvað heildarverðmæti sem við getum kallað hundrað og er til skiptanna í hagkerfinu.

Það vefst hins vegar fyrir mér hvers vegna það virðist ekki skipta neinu máli hversu stór hluti af þessu hundraði fer á fáa. Það skapar ekki verðbólguþrýsting. Hins vegar ef taka á eitthvað af þessu hundraði og auka jöfnuð í samfélaginu með hækkun launa, fer allt í óðaverðbólgu.
Eftir því sem mér er sagt þá eiga áhrif launahækkana og aukins hagnaðar sem greiddur er út sem arður að mælast í gegnum ráðstöfunartekjur heimilanna og í raun er enginn munur á því hvort ráðstöfunartekjurnar hækka vegna launa eða arðs, hagfræðilega er aukning bara aukning.
Þetta eru sömu krónurnar sem ég er að fjalla um, eini munurinn er sá að áhrif þeirra á hagkerfið virðist fara eftir því í hvaða vasa þær lenda.

Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvers vegna þetta er svona? Nýjustu aðvaranir frá virtum alþjóðlegum stofnunum eru að sú mikla misskipting sem hefur fengið að viðgangast í alltof mörgum samfélögum, er að ganga frá þeim efnahagslega. Skilaboðin frá þessum stofunum eru: takið á þessu og aukið jöfnuð því við það mun hagvöxtur aukast. Hvers vegna hefur þessi mikla misskipting og auður heilu samfélaganna sem færst hefur á hendur fárra ekki haft verðbólguáhrif eða einhverjar aðrar hagfræðilegar afleiðingar?

Ef hins vegar á að taka þennan sama auð og auka jöfnuð þá fer allt í óðaverðbólgu!
Þessi hagfræði gengur ekki upp að mínu viti og það þarf að kalla fram skýringar á því sem ég er að velta fyrir mér í þessari grein.
Það er kannski til einföld lausn á þessu með því að breyta hugtökum.
Í staðinn fyrir að greiða út laun um hver mánaðarmót þá greiðum við starfsmönnum út arð og þá verður engin verðbólga.

Sú mikla misskipting sem aukist hefur í íslensku samfélagi hlýtur að kalla á það að hagfræðingar komi með einhver haldbær rök fyrir því að verðmætasköpun heils samfélag megi einungis fara á fáa útvalda en ef launamenn eigi að fá aukinn hluta verðmætasköpunarinnar þá fari allt á annan endann.

Kannski gengur hagfræðin út á þá einföldu kenningu sem ég ætla að leyfa mér að setja fram á ensku eftir Upton Sinclair frá 1935. „ It is difficult to get a man to understand something when his salary depends on his not understanding it“

Í lauslegri þýðingu gæti þetta verið svona ,,Það er erfitt að fá mann til þess að skilja eitthvað þegar launin hans eru háð því að hann skilji það ekki“
Er þetta kannski grunnurinn í þeirri hagfræði sem alltaf er verið að heilaþvo okkur með?

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband