Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

Hver bjó til þessa hagfræði? - Grein frá 2016

Alltaf þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum er rykið þurrkað af gömlu plötunni og hún spiluð, hækkun launa muni fara með hagkerfið í rúst með óðaverðbólgu. Ég held að þetta sé ekki rétt og hef reynt að finna samhengið í þessum málflutningi. Nú koma fram hagnaðartölur fyrirtækja, þar sem milljarðar renna í vasa eigenda. Bónusar í bankakerfinu kr. 900 milljónir, sem ég hef reyndar aldrei skilið í bankakerfi sem er bæði með axlabönd, belti og allt skothelt, engin áhætta. Fyrir hvað er verið að greiða bónusa þar?

Ef búið er til dæmi um fyrirtæki með fimmhundruð starfsmönnum sem hafa kr. 450.000 í mánaðarlaun hver. Fyrirtækið er í eigu 10 einstaklinga og þar starfa samtals 15 aðal- og millistjórnendur. Fyrirtækið skilar góðri afkomu með hagnað upp á fjóra milljarða og eigendur sem ekki starfa við fyrirtækið fá greiddan arð upp á tvo milljarða. Stjórnendur fá sína bónusa þó svo þeir séu á fínum launum.

Laun starfsfólks eru samtals 2,7 milljarðar á ári. Ef þau hækka um 5% eða 135 milljónir, sem er tveim prósentum yfir 3% viðmiði Seðlabanka Íslands, fer hér allt til fjandans.

Aðalstjórnendurnir fimm hafa 5 milljónir á mánuði í laun eða samtals 300 milljónir á ári og tíu  millistjórnendurnir eru með 2,5 milljónir á mánuði hver eða samtals 300 milljónir á ári. Stjórnendurnir 15 fá samtals 80 milljónir í bónusa á ári. Laun stjórnenda á ári eru auk bónusa samtals 680 milljónir. Ef laun og bónusar stjórnenda hækka um sömu prósentutölu og laun starfsmanna þá virðist það engin áhrif hafa.

Í töflunni má sjá hvernig þessi hækkun dreifist á starfsmenn, stjórnendur og hvað eigendur fá í arð á mánuði.   

              

  

Fjöldi

 

5% Hækkun

 

     Á ári

 

Á mánuði

         

Starfsmenn

 

500

 

135.000.000

 

270.000

 

22.500

Stjórnendur

 

15

 

34.000.000

 

2.266.667

 

347.727

         

Arður til   eigenda

 

10

   

2.000.000.000

 

16.666.667

         

22.500 kr. launahækkun starfsfólks setur allt á annan endann en um 350 þúsund kr. hækkun til stjórnenda og arðgreiðslur til eigenda hafa engin áhrif. Ef við förum að ráðum Seðlabankans og hækkum laun einungis um 3% eða 13.500 á mánuði og höldum greiðslum til eigenda og stjórnenda óbreyttum, þá er allt í lagi og engin verðbólguþrýstingur.

Þó ég sé að tala hér um eitt fyrirtæki þá gæti þetta alveg eins átt við atvinnugrein eða bara allt íslenska hagkerfið.
Þetta er ekkert flókið. Við erum alltaf með eitthvað heildarverðmæti sem við getum kallað hundrað og er til skiptanna í hagkerfinu.

Það vefst hins vegar fyrir mér hvers vegna það virðist ekki skipta neinu máli hversu stór hluti af þessu hundraði fer á fáa. Það skapar ekki verðbólguþrýsting. Hins vegar ef taka á eitthvað af þessu hundraði og auka jöfnuð í samfélaginu með hækkun launa, fer allt í óðaverðbólgu.
Eftir því sem mér er sagt þá eiga áhrif launahækkana og aukins hagnaðar sem greiddur er út sem arður að mælast í gegnum ráðstöfunartekjur heimilanna og í raun er enginn munur á því hvort ráðstöfunartekjurnar hækka vegna launa eða arðs, hagfræðilega er aukning bara aukning.
Þetta eru sömu krónurnar sem ég er að fjalla um, eini munurinn er sá að áhrif þeirra á hagkerfið virðist fara eftir því í hvaða vasa þær lenda.

Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvers vegna þetta er svona? Nýjustu aðvaranir frá virtum alþjóðlegum stofnunum eru að sú mikla misskipting sem hefur fengið að viðgangast í alltof mörgum samfélögum, er að ganga frá þeim efnahagslega. Skilaboðin frá þessum stofunum eru: takið á þessu og aukið jöfnuð því við það mun hagvöxtur aukast. Hvers vegna hefur þessi mikla misskipting og auður heilu samfélaganna sem færst hefur á hendur fárra ekki haft verðbólguáhrif eða einhverjar aðrar hagfræðilegar afleiðingar?

Ef hins vegar á að taka þennan sama auð og auka jöfnuð þá fer allt í óðaverðbólgu!
Þessi hagfræði gengur ekki upp að mínu viti og það þarf að kalla fram skýringar á því sem ég er að velta fyrir mér í þessari grein.
Það er kannski til einföld lausn á þessu með því að breyta hugtökum.
Í staðinn fyrir að greiða út laun um hver mánaðarmót þá greiðum við starfsmönnum út arð og þá verður engin verðbólga.

Sú mikla misskipting sem aukist hefur í íslensku samfélagi hlýtur að kalla á það að hagfræðingar komi með einhver haldbær rök fyrir því að verðmætasköpun heils samfélag megi einungis fara á fáa útvalda en ef launamenn eigi að fá aukinn hluta verðmætasköpunarinnar þá fari allt á annan endann.

Kannski gengur hagfræðin út á þá einföldu kenningu sem ég ætla að leyfa mér að setja fram á ensku eftir Upton Sinclair frá 1935. „ It is difficult to get a man to understand something when his salary depends on his not understanding it“

Í lauslegri þýðingu gæti þetta verið svona ,,Það er erfitt að fá mann til þess að skilja eitthvað þegar launin hans eru háð því að hann skilji það ekki“
Er þetta kannski grunnurinn í þeirri hagfræði sem alltaf er verið að heilaþvo okkur með?

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


SA, samtök án framtíðarsýnar. - Grein frá 2015

Enn á ný stöndum við frammi fyrir því við endurnýjun kjarasamninga að vera með viðsemjendur sem eru hugmyndfræðilega gjaldþrota. Þar hafa menn enga hugmyndafræði eða kjark að stíga þau skref sem þarf til að gera breytingar í launakerfum til að ná upp ásættanlegum dagvinnulaunum.  Við stöndum frammi fyrir sömu úreltu hagfræðifrösunum og hugmyndaleysinu og þegar við vorum plötuð í aðfarasamninginn og 2,8% launahækkunina. Um leið og búið var að skrifa undir kom það í ljós að SA hafði ekki neinar hugmyndir um breytingar á launaumhverfi ólíkra hópa og því fór sem fór.
Nýjasta útspilið sem var sett fram í örvæntingu og með miðstýringaralræðið að leiðarljósi, er móðgun við okkur. Við höfum ítrekað bent á að þær breytingar sem víða er hægt að gera á launakerfum ólíkra hópa, verða ekki útfærðar með stöðnuðum hagfræðingum eða lögfræðingum.  Þeir sem reka fyrirtækin verða að koma beint að þessum viðræðum, þeir þekkja best vandamálin og lausnirnar sem hægt er að vinna út frá til að gera breytingar.

Innantóma framsetningin er sett fram í nafni norræns vinnumarkaðsmódels. Taka á afmarkaðan lið úr kjarasamningum frá Norðurlöndunum sem hentar SA og gera yfirvinnu ódýrari án þess að dagvinnulaun hækki verulega. Þetta er leið sem dæmd er til að mistakast ef halda á áfram með dagvinnulaun sem ekki er hægt að lifa á.
Ætlum við okkur í framtíðinni að komast inn í vinnumarkaðsfyrirkomulag eins og er á Norðurlöndunum verðum við að taka allt kerfið upp, ekki bara eina setningu sem hentar.

Með framsetningu SA erum við að fara að spóla föst í sama hjólfarinu og við höfum gert í áratugi.

Við höfum ekkert val, við verðum að fara með vinnustöðvanir í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum og reyna að ná fram okkar tillögum um breytingar á launakerfum.

Með staðnaðri hugmyndafræði SA erum við ekki að fara að leggja grunn að norrænu vinnumarkaðsmódeli þar sem náðst hefur ótrúlegur árangur í að auka kaupmátt með litlum launahækkunum.

Við hjá VM viljum út úr því staðnaða launaumhverfi sem við erum í og höfum hugmyndafræðina og lausnirnar til að stíg vitræn skref inn í framtíðina.
Sú staða sem komin er upp í dag og við þurfum að horfast í augu við skrifa ég eitthundrað prósent á SA.
Við höfum séð hvernig staðnaður kommúnismi fór með margar þjóðir í gjaldþrot. Hugmyndafræði SA er að leiða okkur á þann stað ef ekki verður rótæk breyting á stefnu þeirra samtaka.

 


Hver ákvað að láta VM sleikja botninn ? - Grein frá 2015

Það er þrautinni þyngri að átta sig á því hvaða launastefna er ríkjandi á íslenskum vinnumarkaði. Enn á eftir að ganga frá fjölmörgum samningum og vinnuveitendur virðast flokka viðsemjendur sína eftir einhverri óskilgreindri hentistefnu.

Álfyrirtækin fyrir utan Straumsvík eru með sínar eigin leiðir í kjaramálum. Önnur fyrirtæki sem ekki flokkast beint undir hentistefnu Samtaka atvinnulífsins fá frjálsar hendur varðandi gerð sinna kjarasamninga. Þannig fékk fiskvinnslan frítt spil í sínum kjaraviðræðum, svo dæmi sé tekið.

Úrskurður gerðardóms um laun 18 stéttarfélaga í Bandalagi háskólamanna og félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hlýtur að vera nýjasta viðmiðið fyrir VM og aðra hópa sem enn eru með lausa samninga.

Eingreiðsla, afturvirkni og hækkanir 22% til 32%

Prósentuhækkanir í tveggja ára samningi hjá BHM eru um 15%, auk eingreiðslu. Hjúkrunarfræðingar fá 25% til 28,5% hækkun í fjögurra ára samningi, auk eingreiðslu

Þá er afturvirkni í úrskurði gerðardóms um að hækkanirnar taki gildi frá því síðasti samningur rann út.

Það er athyglisvert að lesa hækkanir ólíkra hópa. Einnig innan þeirra félaga sem tóku samningsréttinn af t.d. iðnaðarmönnum með forsenduákvæðum, sem enginn veit í dag hver eru
Þar eru hækkanir frá 22% til 32% á samningstímanum.

14,4% til 18,8% til VM

Félagsmönnum VM er gert að taka almennum hækkunum, sem eru á bilinu 14,4 til 18,8% á samningstímanum, sem er til ársins 2019.

Hvaða sátt eða samkomulag var gert á vinnumarkaðnum um að félagsmenn VM eigi að sleikja botninn og dragast aftur úr í launum?

Ekki kannast ég við þá sátt.

Það liggur ljóst fyrir að SA mun af hörku reyna að þvinga okkur niður á lægsta þrep þeirra kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir á þessu ári.

Hvernig ætla menn að réttlæta og rökstyðja það að félagsmenn VM eigi að bera minnst úr býtum þegar hækkanir eru bornar saman við aðra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu.

Hver ákvað slíkt ?

Ég bara spyr.

Með félagskveðju,

Guðmundur Ragnarsson
formaður VM

 


Ágæti félagsmaður

Þegar ég tók við sem fyrsti kjörni formaður VM, var félagið tæplega tveggja ára og þá óþekkt stærð. Frá þeim tíma hefur okkur tekist að gera VM að öflugu og áberandi stéttarfélagi sem hlustað er á.

Það er mér mikil áskorun og ég hef óbilandi vilja til að halda áfram að byggja félagið upp og gera það enn öflugra. Reynsla mín er orðin mikil og ég vil fá að nýta hana áfram fyrir félagsmenn.

Kjósum
Guðmund Ragnarsson sem formann VM


Formanskjör VM 2018

Ágæti félagsmaður VM,

hér á eftir kemur upptalning á þeim fjölmörgu málum og verkefnum sem ég hef haft frumkvæði að sem formaður að koma í framkvæmd og vill fá umboð þitt til að halda áfram með.  

  • Ég hafði frumkvæði að því að koma á einum besta sjúkrasjóði stéttarfélaga
              
    100% laun að 900.000 kr.     Sjúkraíbúðir í Reykjavík og Akureyri.
  • Ég hafði frumkvæði að uppbyggingu orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn VM
              Fjölgun íbúða, ný sumarhús og nýtt tjaldsvæði.
  • Ég hef verið leiðandi í erfiðum kjarasamningum
  • Ég hef náð fram breytingum í kjarasamningum VM
  • Ég hef haft frumkvæði að því að stoppa undirboð á vinnumarkaði
  • Ég hef verið virkastur í umræðunni um verðlagsmál á fiski
  • Ég hef beitt mér í málefnum lífeyrissjóðakerfisins
  • Ég hef tryggt að þjónusta við félagsmenn sé til fyrirmyndar
  • Ég hef beitt mér fyrir umræðu um breytingu á vinnutíma
  • Ég hef verið virkur í pistla- og greinaskrifum til að koma okkar skoðunum á framfæri
  • Ég hafði frumkvæði að því að efla verkfallssjóð VM
  • Ég hafði frumkvæði að hækkun fræðslu- og endurmenntunarstyrkja 

Ágæti félagsmaður,
ég kalla eftir stuðningi þínum til að halda áfram sem formaður VM.
Ég hvet þig til að taka þátt í kosningunni og greiða mér atkvæði þitt, þá munt þú hafa áhrif á framtíð félagsins.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.

Nánari upplýsingar um mig er á: gumrag.blog.is og www.vm.is


Framboð til formanns VM

Ágæti félagsmaður,

þegar ég tók við sem fyrsti kjörni formaður VM, var félagið tæplega tveggja ára og þá óþekkt stærð. Frá þeim tíma hefur okkur tekist að gera VM að öflugu og áberandi stéttarfélagi sem hlustað er á. Við höfum áunnið okkur traust með málefnalegri framsetningu.
Það sem VM setur fram og hefur skoðun á er vaktað. Við höfum verið frumleg í að fara fram með nýjar hugmyndir í okkar kjaramálum og náð árangri í mörgum þeirra. Með kjararáðstefnunum höfum við tekið fyrir og rætt nýjar leiðir sem við viljum innleiða til að bæta kjör og stytta vinnutíma hjá okkar félagsmönnum. Atvinnurekendur hlusta á rök okkar og leita til félagsins við lausn mála. VM er með um tuttugu kjara- og vinnustaðasamninga sem eðlilega kallar á mikla vinnu hjá félaginu við endurnýjun og vinnslu þeirra. Við höfum tekið þátt í og leitt margar erfiðar kjaradeilur. Þrátt fyrir mikla ólgu í okkar samfélagi, frá því ég tók við sem formaður, hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu félagsins og að auka réttindi félagsmanna.

Flest eldri orlofshús félagsins hafa verið tekin í gegn, ný hús byggð á Laugarvatni og íbúðum fjölgað í Reykjavík og á Akureyri. Stefnt er að því að fjölga íbúðum í Reykjavík fyrir félagsmenn af landsbyggðinni. Mér tókst að semja við Ungmennafélag Laugdæla um skógarlandsvæði við hlið orlofssvæðis VM á Laugarvatni og þar hefur verið byggt upp eitt flottasta tjaldsvæði landsins. Unnið er markvisst að frekari uppbyggingu orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn og eru nokkur verkefni í undirbúningsvinnu.

Við breyttum dagpeningagreiðslum í sjúkrasjóði VM þannig að hann er sennilega með bestu réttindi, sem boðið er upp á í dag, hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga og er ég mjög stoltur af því. Einnig voru réttindi eldri félagsmanna aukin umtalsvert í sjúkrasjóðnum.
Styrkir úr fræðslusjóðnum voru hækkaðir verulega, enda er endurmenntun að verða sífellt mikilvægari á vinnumarkaðnum.
Verkfallssjóður félagsins var stækkaður og gerður sýnilegri í þeim tilgangi að viðsemjendur okkar séu meðvitaðir um það að við höfum aflið til að taka slaginn gerist þess þörf.
Þjónusta félagsins við félagsmenn er eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á og telst það til undantekninga að ekki sé starfsmaður við á skrifstofunni til að sinna erindum félagsmanna. Frammistaða og þjónusta starfsmanna VM er til  fyrirmyndar og mjög góður starfsandi ríkir á skrifstofu félagsins. Stjórn félagsins hefur starfað af einhug um flest mál sem teknar hafa verið ákvarðanir um.

Á þeim tæpum tíu árum sem ég hef verið formaður hafa kjaramálin og ástandið í samfélaginu eftir hrun eðlilega tekið mikinn tíma. Ég hef samhliða beitt mér með greina- og pistlaskrifum til að koma skoðunum okkar og baráttumálum inn í umræðuna í samfélaginu.

Ég hef beitt mér í verðlagsmálum á fiski fyrir vélstjóra á fiskiskipum gegn SFS og stjórnvöldum á öllum sviðum. Nýja módelið um afurðaverðstengingu á bolfiski var mín hugmynd.

Við höfum sett fram hugmyndir um nýjar leiðir í kjaramálum og styttingu vinnutíma í okkar starfsgreinum í landi. Með samtölum, kynningum á hugmyndum okkar og góðum undirbúningi höfum við náð fram breytingum í kjarasamningum, til dæmis í orkugeiranum, farskipum, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnun og víðar.

Við höfum farið í margar erfiðar kjaraviðræður þar sem VM hefur verið í forystuhlutverki og samninganefndir félagsins sýnt sjálfstæði og kjark til að ljúka kjarasamningum.
Ég hef beitt mér af afli í málefnum erlendra starfsmanna bæði til að tryggja rétt þeirra og um leið að reyna að sporna við undirboðum í okkar greinum.

Ég hef sett fram gagnrýni á skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel að skipulagið sé farið að skaða okkur í að ná fram breytingum og bættum kjarabótum fyrir félagsmenn VM. Verði ekki reynt að taka á þessum málum sem fyrst, mun sundrungin veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar.  Hvort VM á að vera innan eða utan ASÍ, er mál sem þarfnast mikillar umræðu. Það er hinsvegar ljóst að áhrif VM til stefnumörkunnar í mörgum mikilvægum málefnum félagsmanna okkar yrði lítil sem engin ef við færum þar út. Það er vandséð hvernig stórt félag eins og VM eigi að láta aðra um að móta stefnuna í mörgum mikilvægum málum sem snerta okkar félagsmenn án þess að hafa neitt um það að segja.

Það eru mörg önnur mál, en þau sem talin eru hér upp að framan, sem ég hef beitt mér fyrir og vakið athygli á. Það er mér mikil áskorun og ég hef óbilandi vilja til að halda áfram að byggja félagið upp og gera það enn öflugra. Reynsla mín er orðin mikil og ég vil fá að nýta hana áfram fyrir félagsmenn. VM á að vera landsfélag allra í  vél- og málmtækni á Íslandi, og við ætlum að ná því fram. Það eru miklar áskoranir framundan í kjarasamningagerð á íslenskum vinnumarkaði sem VM er tilbúið að vera leiðandi í. Við verðum að finna nýjar leiðir til styttingar vinnutíma og hækkunar dagvinnulauna.
Niðurstaða verður að nást í verðlagsmálum á fiski, sem er grunnurinn að sátt um kjaramál vélstjóra á fiskiskipum.
Málefni lífeyriskerfisins er alltaf í umræðunni, þar eru margar áskoranir framundan sem við munum hafa skoðanir á eins og vilji félagsmanna VM segir til um.
Menntamálin eru að verða sífellt stærri málaflokkur sem þarf að sinna betur, þar þurfum við að setja meiri vinnu í að spyrna við fæti og stoppa þróun sem er að verða mjög ruglingsleg og tilviljanakennd, ef ekki á illa að fara í menntun okkar félagsmanna. 

Tilvitnun í loforð úr framboði mínu 2008.

„Ég mun beita mér fyrir því að félagið verði áberandi í allri þjóðfélagsumræðu varðandi málefni félagsmanna. Með þessu munum við skapa okkur sjálfstæði sem auka mun möguleika okkar á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og hafa áhrif. Sjálfstætt og áberandi félag skilar okkur mestu í allri kjarabaráttu. Þar þurfum við að sýna frumkvæði og áræðni til að ná auknum kjarabótum í framtíðinni. Einnig að fá aukna viðurkenningu á fagmennsku og mikilvægi okkar félagsmanna.“

Ég hef staðið við það sem ég lofaði, ég hef heiðarleikan að leiðarljósi og ég stend við það sem ég segi.

Ágæti félagsmaður,
ég kalla eftir stuðningi þínum til að halda áfram sem formaður VM.
Ég hvet þig til að taka þátt í kosningunni og greiða mér atkvæði þitt, þá munt þú hafa hrif á framtíð félagsins.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.


Samhengi framleiðni og lágra dagvinnulauna. - Grein frá 2015

Aukin framleiðni, hagræðing eða hvað menn vilja kalla hugtakið, hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri og var ein af megináherslum nýafstaðins Iðnþings Samtaka Iðnaðarins. Í margumtalaðri skýrslu McKinsey er talað um 20% minni framleiðni en í þeim löndum sem við viljum bera okkur samann við. Í nýútkominni skýrslu Heildarsamtaka vinnumarkaðarins  í febrúar 2015 ´´ Í aðdraganda kjarasamninga,, er einnig komið inn á lélega framleiðni.
Ég sat Iðnþing Samtaka Iðnaðarins og þar var mikið talað um að auka framleiðni, en alltaf skautað framhjá því hvað veldur lélegri framlegð hjá okkur Íslendingum. Dagvinnulaun eru svo lág að engin getur lifað á þeim. Það framkallar hvata til að fá eftirvinnu svo hægt sé að hafa heildarlaun til að framfleyta sér. Enda er alltaf miðað við heildarlaun þegar verið er að vitna í laun.
Hafa Samtök atvinnurekenda virkilega ekki velt því fyrir sér að þessi mikla vinna okkar Íslendinga byggist á þörf fyrir hærri launum, ekki vegna hins margumtalaða dugnaðar eða það sé svona leiðinlegt heima hjá viðkomandi. Margar stéttir kalla á þá breytingu að auka framleiðni og hærri dagvinnulaun til að eiga líf eftir vinnu með fjölskyldum sínum.
Það er alltaf skautað framhjá því í allri umræðunni, að ef stytta á vinnutíma og auka framleiðni þá verða dagvinnulaunin að vera í samhengi við raunverulegan framfærslukostaða. Eitt af því sem skapar aukna framleiðni er meðal annars úthvílt og ferskt starfsfólk. Svoleiðis ástand skapast ekki hjá fyrirtækjum með lág dagvinnulaun. Ef ekki er boðið upp á yfirvinnu er einstaklingurinn í tveimur ef ekki þrem  störfum og er síþreyttur. 

Það er voða fínt að vera með öll þessi fínu hugtök og fara með þau fram þegar hentar. Ef hins vegar er einhver vilji til að ná árangri í atvinnulífinu um að auka framleiðni, þá verður það ekki gert nema með ásættanlegum dagvinnulaunum sem duga til framfærslu.
Reynum að einbeita okkur að kjarna málsins til að finna leiðir til aukinnar framleiðni, ekki vera með flotta frasa og skauta framhjá raunveruleikanum. Lág dagvinnulaun eru orsök bágrar stöðu okkar á þessu sviði, förum í það verkefni í komandi kjarasamningum að hækka dagvinnulaun og þá mun framleiðni aukast mjög hratt.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Kjarasamningur VM við SA felldur

Nú liggur fyrir niðurstaða kosninga um almennan kjarasamning VM við SA. Samningurinn var felldur með afgerandi hætti. Þátttakan var mjög góð miðað við kosningu um kjarasamning og niðurstaðan skýr.
Ef lesa á í það sem félagsmenn eru mest óánægðir með er það launaþróunartryggingin og lág dagvinnulaun.  Að samningsréttur sé tekinn af sjálfstæðum stéttarfélögum af öðrum stéttarfélögum  þar sem þau láta hækkun lægstu launa ganga fyrir á kostnað þeirra sem eru fyrir ofan í launum er einnig gjörningur sem félagsmenn VM eru mjög ósáttir við. Þessi sjónarmið komu skýrt fram á fundum sem haldnir voru í tengslum við atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn.
Það eru allir sammála um að lágmarkslaun á Íslandi eru alltof lág, hinsvegar verður að vera ákveðið launabil og það verður að ákveða með sátt á milli aðila, ekki með valdi.

Samkomulag um ásættanleg laun

Í lok samningstímans áttu lágmarkstekjutryggingar og dagvinnutaxti iðnaðarmanna með sveinspróf og fimm ára starfsreynslu að fara úr 40% mun, niður í 29%.
Var einhver sátt um þetta?
Svarið er nei.

Það verður að finnast lausn í samfélaginu um að hér séu borguð ásættanleg dagvinnulaun sem fólk getur lifað af. Ekki vantar mælingarnar á auð íslenskt samfélags.

Aðför blandaðra stéttarfélaga

Það var undarlegt að sjá hvernig blönduðu stéttarfélögin með margar starfstéttir voru tilbúin að gera svona aðför að sínum eigin félagsmönnum og undirstrikar að ef iðnaðarmenn ætla að ná árangri í bættum kjörum þá verum við að koma á landsfélögum allra í viðkomandi starfsgreinum. Sundraðir út og suður erum við veikir eins og sýndi sig í samstarfi iðnaðarmanna.
Samningafundir í ágús.
Í samráði við Samtök atvinnulífsins munum við setjast að samningsborðinu aftur í byrjun ágúst, þar sem sumarleyfi mundu gera alla vinnu mjög ómarkvissa fram yfir verslunarmannahelgi.

Með félagskveðju,
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Verðum að eyða tortryggninni

Viðtal í Athygli desember 2017

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna. „Við eigum ekki að þurfa að lúta einhliða mati okkar samningsaðila um það hvert sé raunverulegt verðmæti aflans sem laun okkar manna byggjast á.“

Verðum að eyða tortryggninni

 „Það kom berlega í ljós, þegar við vorum að kynna síðasta kjarasamning, að mikið vantraust ríkir meðal sjómanna í garð útgerðanna þegar kemur á mati þeirra á verðmæti aflans, einkum í garð þeirra sem eru með veiðar, vinnslu og sölumál á einni hendi. Besta leiðin til að tryggja að ekki sé verið að möndla með þessar tölur er að allur fiskur fari á markað en ef það tekst ekki þarf að stórefla Verðlagsstofu skiptaverðs til að annast eftirlitið. Öðru vísi geta sjómenn ekki treyst útgerðunum fyllilega til að reikna út hvað þeim beri að fá í launaumslagið sitt,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna í samtali við Sóknarfæri.

Árið sem senn er að líða var viðburðaríkt hjá Guðmundi og hans félögum í sjávarútveginum en kjarasamningar voru loks samþykktir í febrúar eftir 10 vikna verkfall undi hótunum stjórnvalda um lagasetningu. Kjarasamningur vélstjóra á fiskiskipum var samþykktur með afgerandi meirihluta og nokkuð góðri þátttöku. Guðmundur segist hafa þungar áhyggjur af því hversu viðræður við SFS gangi hægt og einni hvað varðar ný vinnubrögð við samningagerðina. Hann metur það svo að það stefni í átök við lok samningstíma nema fulltrúar útgerðarinnar komi með önnur viðhorf og samningavilja inn í viðræðurnar.

Allt upp á borðið

„Að mínu mati var síðasti samningur okkar ásættanlegur sem málamiðlun. Það má ekki gleyma að hann átti að vera fyrsta skrefið inn í mikla og krefjandi vinnu á samningstímanum því í bókunum samningsins eru mörg stór úrlausnarmál sem ætlunin var að vinna skipulega og með öguðum tímaramma áður en samningurinn rynni út í október 2019. Ég verð að segja eins og er að mér finnst sú vinna ganga allt of hægt, m.a. að ná sátt um aðferðir við að framkvæma hvíldartíma könnun á fiskiskipum, veikindarétt og fleira. Stærsta málið sem enn er deilt um er verðlagningin á lönduðum afla í uppsjávareiðunum og það er að koma í ljós að það var slæmt að ekki tókst að koma samningum um fiskverð í annan farveg en er í dag, á milli útgerðar og áhafnar. Það þarf ekki mörg orð um það hvernig samningsstaða áhafnarinnar er. Meðan menn hafa þetta ekki upp á borðum ríkir tortryggni og ósætti hjá þjóðinni um þessa mikilvægu atvinnugrein. Það getur ekki verið til góðs. Ef sá sem hefur nýtingarréttinn og getur stjórnað afurðaverðinu verður alltaf tortryggni um hver er rétti afraksturinn er af auðlindinni og hvort tekjur sjómanna og samfélagsins séu réttar. Ef til dæmis fyrirtæki, sem er með alla virðiskeðjuna á einni hendi sem og sölufyrirtækið sem selur og kaupir afurðirnar erlendis, verður að vera tryggt að rétt afurðaverð skili sér til landsins en ekki aðeins hluti þess. Afurðaverðið myndar jú stofninn sem laun sjómanna eru reiknuð út frá. Meðan útgerðin er ekki tilbúin að leggja þessi mál á borðið, þá verður alltaf tortryggni,“ segir Guðmundur ennfremur.

Verðlagsstofan verði efld

Guðmundur leggur áherslu á að verðlagsmálin séu hluti þeirrar sáttar sem þurfi að nást um íslenskan sjávarútveg til frambúðar. „Það er slæmt að þurfa að vera með þetta stóra mál inn á kjarasamningsborði, en laun okkar umjóðenda byggjast á fiskverði og afurðarverði og því verður ekki hjá því komist að óbreyttu. Ef stefna SFS breytist ekki gerum við þá körfu til stjórnvalda að efla stórlega Verðlagsstofu skiptaverðs þannig að hægt sé að sýna okkur svart á hvítu fram á að þau afurðaverð sem verðlagningin á fiskinum byggist á séu þau verð sem aðrar þjóðir eru að fá fyrir sams konar verðmæti. Okkur var raunar lofað því að hún yrði efld stórlega en það hefur ekki enn verið efnt. Þetta hefur verið helsta deilumál þjóðarinnar árum saman og stjórnvöld geta auðvitað ekkert verið stikkfrí í því að hreinsa borðið og tryggja að aðilar vinni með upplýsingar sem allir geta treyst. Við eigum ekki að þurfa að lúta einhliða mati okkar samningsaðila um það hvert sé raunverulegt verðmæti aflans sem laun okkar manna byggjast á. Þarna eiga að liggja fyrir tölur sem hægt er að treysta 100% og óvilhallur aðili þarf að kvitta upp á að svo sé.“

Við víkjum talinu að ástandi og horfum á almenna vinnumarkaðnum. Guðmundur segir ljóst að út frá þeim samningsforsendum sem síðustu kjarasamningar voru gerðir sé hægt að segja upp samningum í febrúar á næsta ári.

Við þurfum samstillt átak

„Mín skoðun er sú að forsenda þess að hægt sé að koma hér á svokölluðu norrænu samningsmódeli, sem í almennri umræðu er kennt við SALEK, þurfi að gera stórátak í byggingu húsnæðis fyrir þá sem lægst hafa kjörin Hér eru húsnæðisskuldir alla lifandi að drepa og langbesta kjarabót þeirra sem minnst hafa kaupið er að hafa aðgang að öruggu húsnæði á sanngjörnu verði. Það gefur auga leið að fólk með lágar tekjur getur ekki þrifist við aðstæður þar sem leiga á 3ja herbergja íbúð kostar 250.000 kr. á mánuði eða lunginn af laununum fer í að borga af lánunum. Þennan vítahring verður að rjúfa.“

Guðmundur bætir við að hann hafi farið ásamt aðilum vinnumarkaðarins  til Osló, Stokkhólms og Kaupmannahafnar og kynnt sér norræna módelið og það hafi verið áhugaverðir fundir. „Við hittum þarna ríkissáttasemjarana, menn úr fjármálaráðuneytum, frá atvinnurekendum og svo auðvitað okkar vopnabræður í verkalýðshreyfingunum bæði frá almennu og opinberu félögunum. Allir voru þeir einhuga um að snúa ekki til baka til fyrra kerfis heldur halda sig við að bæta kjörin út frá afkomu útflutningsgreinanna.  Það hefur í þessum löndum leitt til 30-40% kaupmáttaraukningar frá því sem var á 10. áratug síðustu aldar. En þessi árangur hefur ekki náðst nema með stórfelldu inngripi ríkisins til að bæta kjör hinna verst settu. Þetta tvennt hefur haldist í hendur. Þá erum við að tala um niðurgreitt húsnæði og ýmislegt stuðning sem þeir lægst launuðu hafa aðgang að. Þannig eru kjörin jöfnuð í Skandinavíu. Hér á landi er nánast búið að strika allt slíkt út og á meðan það ástand varir á Íslandi er tómt mál að tala um að bæta kjörin, auka jöfnuð og koma á stöðuleika með stígandi aukningu á kaupmætti. Íslenska leiðin var og er jafnan sú að krefjast hárra krónutölu- eða prósentuhækkana við samningsborðið sem undantekningalaust hefur endað með verðbólgu sem hirðir allan ávinninginn. Þess vegna segi ég að ríkið verður að koma að þessu borði og það án tafar ef ekki á illa að fara. Við fylgjumst auðvitað spenntir með aðgerðum og stefnu nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, ekki bara í orði heldur fyrst og fremst í borði.“

 

 

 


Ábyrg og málefnaleg gagnrýni

Ábyrg og málefnaleg gagnrýni er af hinu góða og þróar og þroskar alla umræðu og stefnumótun. Til að það gerist  þarf hún að vera málefnaleg og lausnamiðuð. Að mínu mati fá mörg stór málefni mikinn tíma í fjölmiðlum og spjallþáttum án þess að kallað sé eftir því hjá þeim sem eru í viðtölum hvernig þeir vilji  leysa málin eða hvernig þeir vilji setja þau í aðra útfærslu.

Lengi hafa tveir forystumenn í verkalýðshreyfingunni farið fram með mikla gagnrýni á lífeyriskerfið. Ég hef ekki náð samhengi í gagnrýni þeirra hvorki hvað varðar rekstur lífeyriskerfisins né hvernig annað og öðruvísi lífeyriskerfi getur tryggt einstaklingum útgreiðslur eða þá hvernig samtryggingin, sem kerfið byggist á, á að greiða meira til sjóðsfélaga. Skerðingin sem stjórnvöld hverju sinni setja á útgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins er sögð vera lífeyriskerfinu að kenna en ekki þeim stjórnvöldum sem ákveða skerðingarnar.
Grunnskilningurinn verður að vera á hreinu á lífeyrissjóðakerfinu, sem er að um leið og farið er að greiða einhverjum meira út úr almenna lífeyrissjóðakerfinu, en viðkomandi hefur lagt til sjóðanna, þá þarf að taka þá peninga af öðrum sem eiga fjármuni þar inni. Ég hef rekið mig ótrúlega oft á að þeir sem eru háværastir í gagnrýninni virðast vita lítið eða ekkert um lífeyriskerfið.

Á öllum aðalfundum lífeyrissjóða sem ég hef setið er talað um rekstur sjóðanna og oft hefur sú umræða verið hörð. Gagnrýni á rekstur þeirra er því alls ekki ný. Nýlega var bent á erlendan sjóð sem er sagður vera stærri en allt okkar lífeyriskerfi og að þar starfi aðeins einn maður við að reka hann. Þegar betur er skoðað og stuðst við úttektir og samanburði OECD  sést að íslensku sjóðirnir koma mjög vel út í samanburði við svona sjóði. Því hefði verið gott að fá inn í umræðuna rekstrarkostnað sjóðsins og málefnalega umræðu um reksturinn.

Hverjir eiga að kjósa stjórnirnar?

Ég skal vera fyrsti maðurinn til að taka undir gagnrýnina um að lífeyrissjóðir á Íslandi séu of margir. Þá þarf að spyrja hver sé ástæðan fyrir því að þeim fækki ekki hraðar. Svarið er einfalt, það er að finna í því sem þeir félagar gagnrýna mjög, en það er lýðræðið í sjóðunum. Enginn sameinar sjóði nema vilji þeirra sem taka lýðræðislega ákvörðun um það sé til staðar. Það hefur verið ítrekað kallað eftir beinni lýðræðislegri kosningu í stjórnir lífeyrissjóða og þá umræðu þarf að taka. Hins vegar hefur enginn komið fram með útfærslu á henni. Eiga t.d. allir þeir rúmlega 217 þúsund einstaklingar með mismikil réttindi í lífeyrissjóðnum Gildi að kjósa um stjórnarmenn? Á ég sem á réttindi í fjórum sjóðum að hafa sama vægi í þeim öllum til að kjósa í stjórn, þó 98 % réttinda minna séu í Gildi?

Samningur ASÍ og SA um lífeyriskerfið á almenna vinnumarkaðnum er ekkert ósvipað plagg og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það hefur verið þróað í um 50 ár. Eign mín í lífeyrissjóðnum mínum er mín eign og því yrði það eignarupptaka ef afhenda á öðrum meira en þeir hafa lagt inn og samþykktir sjóðsins kveða á um í því lýðræðislega formi sem sjóðurinn vinnur eftir í dag.
Það eru ýmsar útfærslur á lýðræðinu.

Allar hugmyndir um breytingar á lífeyriskerfinu þurfa því að vera vel útfærðar og þaulhugsaðar svo þær valdi ekki skaða fyrir þá sem eiga réttindi þar. Hvernig viljum við sem best tryggja okkur öllum áhyggjulaust ævikvöld og afkomutryggingu ef við verðum að fara af vinnumarkaði? Hafi þessir gagnrýnendur aðrar og betri lausnir þá eiga þeir að koma fram með þær. Ég veit fyrir mig, að ég vil ekki eiga það undir misvitrum stjórnmálamönnum eða pólitískum stefnum, hverju mér verður skammtað til að lifa af í ellinni.

Fáum ekki meira en við leggjum inn

Ég myndi aldrei vilja þurfa að treysta á opinbert eftirlaunakerfi að lokinni starfsævi. Oft gleymist í umræðunni, að þegar við förum á eftirlaun frá lífeyrissjóðunum. munum við greiða skatta af þeim og vera áfram fullir þátttakendur í samfélaginu en ekki þiggjendur. Það má heldur ekki gleymast í umræðunni að ef lífaldur okkar heldur áfram að hækka og fer fram sem horfir mun hlutfallið breytast mjög hratt milli þeirra sem eru á vinnumarkaði og þeirra sem eru á eftirlaunum. Spurningin er hver verður geta samfélagsins til að úthluta fjármunum til gamals fólks í framtíðinni.

Sú mikla gagnrýni sem hefur verið á útgreiðslur úr kerfinu á sér eðlilegar skýringar. Það fær enginn meira út úr kerfinu heldur en hann hefur lagt inn í það og hvernig þeir fjármunir ávaxtast. Helstu fórnarlömb hrunsins 2008, gamla fólkið á Íslandi, hafði tapað mestu af sínum inngreiðslum í sinn lífeyrissjóð frá 1968 til 1980, þar til verðtryggingin var sett á en það var gert í óðaverðbólgu. Einhver hafði á orði að hann hefði átt fyrir einu lambalæri eftir inngreiðslur í öll þessi ár vegna þess að inneignin brann upp á verðbólgubálinu. Það eru nefnilega tvær hliðar á umræðunni um verðtrygginguna. Hún er ekki bara fyrir þá sem skulda að hafa skoðun á henni, hún er líka fyrir þá sem hafa lagt til hliðar í banka eða lífeyrissjóði og vilja raunvirði innistæðunnar til baka. Stærstu fjármagnseigendur á íslandi eru venjulegt launafólk, það má ekki gleyma því.

Varðandi fjárfestingar lífeyrissjóðanna frá hruni má rifja það upp að það hafa verið fjármagnshöft á Íslandi og því ekki verið um marga fjárfestingakosti að ræða. Síðan hefur verið  mikill pressa á lífeyrissjóðina að taka þátt í atvinnuuppbyggingu í landinu. Fleiri störf, meiri hagsæld. Ég hef aldrei skilið íslenska bankakerfið og alla sérfræðingana þar sem sjaldan eru tilbúnir að lána ef einhver áhætta er fyrir hendi, henni skal koma yfir á lífeyrissjóðina. Það er ekki bæði haldið og sleppt. Eignarhlutur lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi er umræða sem á að vera sívakandi og ábyrg
og á málefnalegum forsendum en ekki í upphrópunum.

Innistæðan mín búin 83 ára

Ég skora á alla að kynna sér sín lífeyrisréttindi. Ég mun væntanlega byrja að taka út eftirlaunin mín eftir sjö ár. Ég á orðið mjög góð réttindi sem byggjast aðallega á því að ég hef alla tíð, frá því að ég kom á vinnumarkaðinn, greitt í verðtryggðan lífeyrissjóð. Uppsöfnuð  innistæða mín mun verða búin þegar ég verð um 83 ára gamall. Ef ég hins vegar verð 99 ára mun ég fá meira út úr sjóðnum en ég hafði safnað inn sjálfur. Þá peninga fæ ég frá þeim sem falla frá fyrr. Ef dæmið snýst við, ef ég fell frá fyrir sjötugt, mun ég tryggja greiðslur og framfærslu fyrir aðra með minni inneign sem ég skil eftir mig. Svona virkar samtryggingin fyrir okkur sem náum að ljúka starfsævinni á vinnumarkaði. Ég ætla ekki að fara að fjalla um örorkugreiðslurnar til þeirra sem verða fyrir því óláni að þurfa að fara af vinnumarkaði og fá greitt ævilangt út úr sínum lífeyrissjóði, sem er sennilega besta og ódýrasta afkomutrygging sem hægt er að fá. Inngreiðsla í lífeyrissjóð er ekki eins og inneign á bankabók og er ekki erfanleg. Það verður að hugsa þetta sem samtryggingu eða afkomutryggingu.

Til að átta sig á upphæðunum sem verið er að tala um þá ætla ég að enda þetta á einföldu dæmi:

Einstaklingur sem lýkur starfsævinni eftir 7 ár, árið 2024 og á 400.000 kr. verðtryggða útgreiðslu á mánuði, hefur safnað réttindum sem eru á núvirði 76.800.000 kr. fram til 83 ára aldurs. Lifi hann og verður 99 ára er búið að tryggja honum útgreiðslur á núvirði að upphæð 153.600.000 kr. Fyrir tíu svona einstaklinga þarf að vera til í sjóðnum 1.536.000.000 kr. Miðað við að tryggingafræðileg staða sjóðs sé á núlli þá er til fyrir þessu.

Ef þetta litla dæmi er sett í samhengi við stærð lífeyrissjóðakerfisins þá þurfa að vera til miklir peningar til að standa við þessar skuldbindingar og það er til fyrir þeim.

Höldum málefnalegri gagnrýni áfram, annars stöðnum við.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband