Hver ákvað að láta VM sleikja botninn ? - Grein frá 2015

Það er þrautinni þyngri að átta sig á því hvaða launastefna er ríkjandi á íslenskum vinnumarkaði. Enn á eftir að ganga frá fjölmörgum samningum og vinnuveitendur virðast flokka viðsemjendur sína eftir einhverri óskilgreindri hentistefnu.

Álfyrirtækin fyrir utan Straumsvík eru með sínar eigin leiðir í kjaramálum. Önnur fyrirtæki sem ekki flokkast beint undir hentistefnu Samtaka atvinnulífsins fá frjálsar hendur varðandi gerð sinna kjarasamninga. Þannig fékk fiskvinnslan frítt spil í sínum kjaraviðræðum, svo dæmi sé tekið.

Úrskurður gerðardóms um laun 18 stéttarfélaga í Bandalagi háskólamanna og félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hlýtur að vera nýjasta viðmiðið fyrir VM og aðra hópa sem enn eru með lausa samninga.

Eingreiðsla, afturvirkni og hækkanir 22% til 32%

Prósentuhækkanir í tveggja ára samningi hjá BHM eru um 15%, auk eingreiðslu. Hjúkrunarfræðingar fá 25% til 28,5% hækkun í fjögurra ára samningi, auk eingreiðslu

Þá er afturvirkni í úrskurði gerðardóms um að hækkanirnar taki gildi frá því síðasti samningur rann út.

Það er athyglisvert að lesa hækkanir ólíkra hópa. Einnig innan þeirra félaga sem tóku samningsréttinn af t.d. iðnaðarmönnum með forsenduákvæðum, sem enginn veit í dag hver eru
Þar eru hækkanir frá 22% til 32% á samningstímanum.

14,4% til 18,8% til VM

Félagsmönnum VM er gert að taka almennum hækkunum, sem eru á bilinu 14,4 til 18,8% á samningstímanum, sem er til ársins 2019.

Hvaða sátt eða samkomulag var gert á vinnumarkaðnum um að félagsmenn VM eigi að sleikja botninn og dragast aftur úr í launum?

Ekki kannast ég við þá sátt.

Það liggur ljóst fyrir að SA mun af hörku reyna að þvinga okkur niður á lægsta þrep þeirra kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir á þessu ári.

Hvernig ætla menn að réttlæta og rökstyðja það að félagsmenn VM eigi að bera minnst úr býtum þegar hækkanir eru bornar saman við aðra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu.

Hver ákvað slíkt ?

Ég bara spyr.

Með félagskveðju,

Guðmundur Ragnarsson
formaður VM

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband