Ég – Seðlabankinn – Samherji - Grein frá júní 2012

Aðför Samherja á mína persónu sem framkvæmd var á fundi félagsins með starfsmönnum þess á sjó 5. júní sl. sýnir best hvað menn eru tilbúnir að leggjast lágt til að gæta hagsmuna sinna. Á fundinum dreifðu þeir fjórum blöðum með tilvitnunum, slitnum úr samhengi, sem ég hef skrifað og haft hefur verið eftir mér í fjölmiðlum. Tilgangurinn er augljós, ekki voru þeir menn til að bjóða mér að koma og standa fyrir því sem ég hef sagt um verðlagsmál á fiski. Ég hefði mætt og stend við allt sem ég hef sagt, þar sem ég hef aðallega verið að setja fram spurningar og kallað eftir svörum. Þeir lögðu það á sig að kaupa samantekt á þessum ummælum mínum til að leggja fram. Ég hlít að líta á þetta sem hrós, ekki væru menn að leggja þetta allt á sig ef þeir gætu svarað því sem verið er að kalla eftir.

Ein af tilvitnunum er eftirfarandi:

 Grein wftir formanninn sem birtist í 3. tölublaði Tímarits VM um verðmyndun á fiski
sem út kom í október 2011.
Greinin bar heitið mikill munur á verði milli landa.

Þar ritar Guðmundur meðal annars:

,,Hærra verð til útlendinga,,
.... Íslenskar útgerðir ákvarða verð til sinna sjómanna einhliða. Áhafnir eru settar í þá stöðu að sætta sig við verðið til að halda starfi sín. Það er þröngur kostur, sjómönnum er annt um fjárhagslegt öryggi sitt og fjölskilna sinna...

Framkvæmdastóri LÍÚ viðurkenndi það sem þarna er sett fram í viðtali við Spegilinn hjá RÚV.

VM er gott stéttarfélag og leggur sig fram við að gæta hagsmuna félagsmanna sinna á öllum sviðum. Samherji eins og aðrir útgerðarmenn vita um þá miklu spennu sem sífellt ríkir um verðlagningu á fiski hér á landi. Ég sem formaður félagsins ber skylda til að reyna að minnka þá spennu með því að setja fram spurningar og kalla eftir svörum til að geta svarað mínum umbjóðendum. Meðan ekki er hægt að setjast niður og finna eðlilegar skýringar á verðmynduninni þá verður tortryggni. Ekki mun standa á mér að taka þátt í að útskýra verðmuninn eða grunninn fyrir mínum umbjóðendum um leið og eðlilegar skýringar koma fram. Grandi hefur stigið þetta skref, að fara í samanburð á verðmyndun hér, í Noregi og Færeyjum. VM er tilbúið að fara í þá vinnu með þeim. Þeir eiga hrós skilið fyrir fundinn sem þeir héldu með sínum sjómönnum um þessi mál og buðu stéttarfélögum sjómanna á.

Einn af eigendum Samherja, Kristján Vilhelmsson sendi mér samantektina sólahring eftir að fundurinn átti sér stað með þeim ummælum sem ég ætla að vitna í:

Auk þess þar sem þú sem formaður VM virðist vera mikil áhrifavaldur í rekstri Samherja hf um þessar mundir lét ég taka saman nokkrar tilvitnanir í skrif þín, ummæli og viðtöl úr  þáttum Ríkisútvarps/sjónvarps. Þessi samantekt lá einnig frammi á fundinum.

Hvernig Samherjamenn tengja rannsókn Seðlabanka Íslands á félaginu við formann VM er mjög langsótt og illskiljanlegt. Ég skrifaði grein um verðlagsmál á fiski í Tímarit VM í október 2011. Hún vakti athygli fjölmiðla sem fóru eitthvað að kafa í málin og það er mér alls óviðkomandi hvað fjölmiðlar hafa fyrir stafni. Samherjamenn sýna með þessu að allt verður lagt í sölurnar í hagsmunagæslunni. Þeir fara beint í manninn en ekki boltann, í kappleik með dómara fengju þeir rautt spjald og væru reknir útaf.

Sjálfsagt eru þeir vanir að spila leikinn þannig á sínum heimavelli, að þeir semja leikreglurnar og sjá um dómgæsluna líka.

Ég ætla að enda þetta með síðustu setningunni í fyrrnefndri grein sem virðist vera búinn að vald miklum pirring hjá mörgum.

Mig langar til að skilja og fá skýringar fyrir hönd minna umbjóðenda hjá VM.

Kv. Guðmundur Ragnarsson formaður VM

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband