Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Verðmyndun á fiski. - Grein frá 2011

Mikill munur á verði milli landa.
Eitt af undrum íslenskt hagkerfis og frjálshyggjunnar er verðmyndun á fiski. Í hagkerfi sem byggt var upp með frjálshyggjunni, er markaðurinn talinn besta leiðin, til að tryggja samkeppni og hagkvæmni. Þá hafa hörðustu postular markaðshyggjunnar sagt, að það gildi ekki í íslensum sjávarútvegi. Forystumenn stéttarfélag sjómanna hafa í gegnum árin barist fyrir eðlilegri verðmyndun á fiski. Án   verulegs árangurs. Sjómenn hafa reynt með verkföllum að ná fram einhverjum breytingum, en án ásættanlegs árangurs.Þegar Verðlagstofa skiptaverðs var sett á stofn 1998 var hlutverk hennar að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar er kveðið á um í lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs. Það má fullyrða að þessu fyrirkomulagi var þvingað upp á sjómenn. Byggst hefur upp mikil óánægja og aðeins er tímaspursmál hvenær blaðran springur. Það er, ef ekki verður reynt að finna farsæla lausn á þessum málum. Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna er sá vettvangur, samkvæmt lögunum um Verðlagsstofu, sem fer yfir málin og þar er fiskverð ákveðið.Í áttundu grein laganna segir að Verðlagsstofa skiptaverðs skuli annast upplýsingaöflun og skrifstofuhald fyrir úrskurðarnefnd. Á fyrstu árum stofnunarinnar voru þrjú og hálft stöðugildi og þokkaleg sátt var um að stofnunina og að hún sinnti sínu verkefni.  Í dag er staðan önnur, nú eru þar aðeins tvö hálfdags stöðugildi og er því óhæf til að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað.  Starfsmennirnir leggja sig alla fram og þeir eiga hrós skilið. Verkefnalistinn, frá fulltrúum sjómanna í Úrskurðanefndinni, er orðinn ansi langur. Ekkert er hægt að gera vegna manneklunnar.
Hærra verð til útlendinga
Eins og verðlagsmálin hafa þróast, þá höfum við verið frekar einangruð, með þann sjávarafla sem hefur borist hér á land, vegna þess einungis íslenskar útgerðir stunda veiðar innan lögsögunnar í okkar staðbundnu fiskistofnum, sem er mjög gott mál. Hins vegar hefur allan þennan tíma verið varpað fram þeirri spurningu, hvers vegna þær fiskvinnslur sem hafa getað fengið fisk keyptan á íslenskum fiskmörkuðum, geti greitt talsvert hærra verð fyrir hráefnið til vinnslu, en verðið hefur verið í beinni sölu þ.e.a.s. verð sem úrskurðað er í Úrskurðarnefnd. Þessir aðilar hafa  getað greitt þetta háa markaðsverð  fyrir hráefnið, unnið fiskinn og selt hann erlendis og náð framlegð í sínum rekstri. Á sama tíma gráta þeir aðilar, sem vinna á fiskverðum Úrskurðarnefndar, um að verð sé alltof hátt til sjómanna. Ég vil taka það fram, að í þessu eins og öðru varðandi kaupgetu á fiskmörkuðunum, þá fer t.d. sumt af þessum fiski með flugi á dýra ferskfiskmarkaði þannig að það verður að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur. Mörg útgerðafyrirtæki sinna hinsvegar líka þeim mörkuðum, þó þær greiði sjómönnum verð Úrskurðarnefndar.
Á undanförnum árum hefur dregið úr einangrun í veiðum á uppsjávarfiski. Norðmenn og Færeyingar veiða loðnu, síld og makríl úr sömu torfum og íslenskir sjómenn og íslenskar útgerðir.
Íslenskar útgerðir ákveða verð til sinna sjómanna einhliða. Áhafnir eru settar í þá stöðu að sætta sig við verðið til að halda starfi sínu. Það er þröngur kostur, sjómönnum er annt um fjárhagslegt öryggi sitt og fjölskyldna sinna.
Leynd hér á landi
Ef verðlagning á uppsjávarfiski er skoðuð og borin saman við verð í Noregi og Færeyjum vakna spurningar og skýringa er þörf. Reyndar er ekki sama aðgengi að verðum hér á landi og í hinum löndunum.Á Íslandi er líka mikill leynd yfir verðunum. Því er erfitt að átta sig á hinu raunverulega verði til sjómanna. Eina leiðin er að safna upplýsingunum úr launauppgjörum til sjómanna og finna verðin út eftir á. Til að úrskurðarnefnd geti haft yfirsýn yfir þessi mál þarf að vinna úr upplýsingum hratt, en eins og áður sagði er stofnunin nánast lömuð.
Mig langar að skilja þetta og fá skýringar. Ég er ekki að setja fram fullyrðingar um að eitthvað svindl sé í gangi. Mig langar aðeins að fá útskýringará í hverju þessi mikli munur liggur.
Stöðu minnar vegna, sem fulltrúi í Úrskurðarnefndinni, get ég ekki nefnt staðfest verð, þar sem ég er bundinn trúnaði. Þetta er sérstakt þar sem þar liggja upplýsingar sem eru grundvöllur launa minna umbjóðenda.
Staðfestur verðmunur
Fyrst vil ég skoða loðnuna og fara yfir tölulegar upplýsingar sem ég aflaði mér.
Í Noregi er fiskmarkaður Norges Sildesalglag
https://www.sildelaget.no/omsetning.aspx
Þar kemur fram að 89.298 tonnum af loðnu frá Jan Mayen og Íslandi hafi verið landað þar frá 1/1/2011 til 14/8/2011 á meðalverði sem er 1,89 NKR. eða um 40.2 ÍKR ( miðað við sölugengi Seðlabankans 03/9/2011) á loðnuvertíðinni síðasta vetur var verðið til íslenskra skipa milli 23. til 28. ÍSK. Á vertíðinni var keypt talsvert af loðnu af erlendum skipum og á þeim verðum sem gilda í heimamarkaði skipanna og jafnvel hærra en þar viðgekkst. Þetta varð að gera til að fá aflann til vinnslu hér. Það kom því fyrir að verið var að landa í íslenskri höfn fiski úr sömu loðnutorfunni, á sitthvoru verðinu, sama daginn bara eftir því hvort skipið var íslenskt eða norskt.
Á sama norska markaði er verð á makríl frá sama tímabili. Seld voru 67.038 tonn af ferskum makríl á meðalverði 9,34 NKR eða 198,6 ÍKR (á gengi 03/9/2011). Það skal tekið fram að ekki er skilgreint af hvaða veiðisvæðum makríllinn er.  Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Færeyjum hefur verðið verið um 6 DKR fyrir ferskan makríl og 12 DKR. fyrir frosinn. Ég tel öruggt að hann sé úr sömu fiskitorfunni og íslensku skipin hafa verið að fiska makrílinn úr.
Í ÍKR er það um 132 kr. fyrir ferskan makríl og 264 kr. fyrir frosinn. Veiðiheimildir sem seldar voru í Færeyjum í makríl fóru á 4,56 DKR ( 100 ÍKR) fyrir hann en syndandi í sjónum. Hæsta tilboðið var 5,73 DKR. ( 125,7 ÍKR)  Sem er talsvert hærra en greitt er fyrir hann ferskan í löndun til íslenskra sjómanna.
Þá komum við að íslensku verðlagningunni sem er mjög erfitt af fá góða yfirsýn yfir, vegna trúnaðar og getuleysi Verðlagsstofu til að safna upplýsingum og sannreyna hvort þær séu réttar þegar kemur að uppgjörum til íslenskra sjómanna.  Verðið er að vísu mjög mismunandi t.d. á ferskum makríl, hvort honum er landað úr uppsjávarskipi, togskipi eða handfærum. Hjá uppsjávarskipunum liggur verðið á milli 26 kr. upp í 80 kr. hjá ísfiskskipum en í öðrum veiðiskap virðist verðið liggja milli 50 kr. upp í 110 kr. Allar þessar tölur sem ég hef nefnt sem íslenskir sjómenn eru að fá fyrir ferskan makríl er einhliða ákvörðun útgerðarinnar eins og áður hefur komið fram.
 
Óvinnandi verk
Varðandi frosinn makríl, úr íslenskum skipum, virðast verðin sem ég hef aflað mér upplýsingar um liggja á bilinu 178 kr./kg. upp í 250 kr./kg. eftir skipum og útgerðum.
Eins og fram kemur í greininni er ekki flókið að fá yfirsýn yfir meðalverð á loðnu og makríl frá áramótum í Noregi.
Hinsvegar er þetta algerlega óvinnandi verk fyrir utanaðkomandi aðila að átta sig á íslensku verðlagningunni. Þau verð sem ég hef nefnt eru verð sem mínir umbjóðendur hafa sent mér. Ég sem fulltrúi VM í Úrskurðarnefnd er bundinn trúnaði og get ekki vitnað í upplýsingar sem ég hef aðgang að þar, eins og áður hefur komið fram. Þannig verðlagskerfi er í sjávarútvegi í þjóðfélagi sem byggt er upp sem frjálst markaðshagkerfi og á að tryggja hámarks arðsemi. Það væri efni í heila bók að fjalla um verðmyndunarkerfi á fiski á Íslandi svo flókið og vitlaust er það.
Það sem brennur helst á í dag, til að hægt sé t.d. að koma vinnu af stað, og reyna að skilja verðmuninn sem blasir við þeim sem bera sig eftir því að skoða verð í öðrum löndum á fiski upp úr skipum við löndun og hér heima er það helst að Verðlagsstofa skiptaverðs verði fullmönnuð, helst fjórum stöðugildum til að hægt verði að fara á fullt í þessa vinnu og mörg önnur verkefni sem ekki hefur verið hægt að sinna. Sú niðurlægjandi óvirðing sem Sjávarútveg- og landbúnaðarráðuneyti sýnir þessari atvinnugrein og sjómönnum, að tryggja ekki fjármagn til reksturs stofnunarinnar, er óþolandi. Á sama tíma og þetta ráðuneyti dælir hundruðum miljóna í rekstur bændasamtaka og áróðursmaskínu þeirrar atvinnugreinar. Að ráðuneytið hafi ekki áhuga og vilja til að tryggja að verlagsmál í sjávarútvegi samkvæmt lögunum séu tryggð, að tryggja það að hagsmunum íslenskra sjómanna séu í lagi, er ástand sem ekki er hægt að sitja og þegja yfir lengur. Að mínu viti er komið að ákveðinni ögurstundu varðandi þessi mál. Annaðhvort hysjar ráðuneytið upp um sig buxurnar og tryggir að hægt sé að koma þessum málum í ásættanlegt lag eða að stéttarfélög sjómanna segi sig frá þessu fyrirkomulagi verlagsmála á fiski og í komandi kjarasamningsviðræðum verði verðmyndun á fiski sett á oddinn, fundinn verði önnur aðferðafræði til að tryggja rétta og heilbrigða verðmyndun á fiski fyrir íslenska sjómenn til framtíðar.
Öfunda Norðmenn
Hvað skýrir svona mikinn verðmun á loðnu úr sömu veiðitorfunni í Noregi og Íslandi langar mig að skilja og fá eðlilegar skýringar á. Eins verðmuninn á makríl í Noregi, Færeyjum og á Íslandi. Verðlagning á fiski er eitt af undrum íslenska hagkerfisins, eins og ég sagði í upphafi. Þar er allt á huldu og leynd varðandi verðlagningu sumra fisktegunda,fyrir utan opinbert verð Úrskurðarnefndar á þorski, ýsu, karfa og ufsa. Þau verð sem eru um borð í þeim veiðiskipum sem frysta aflann um borð hefur lítið verið sannreynt með vissu. Ekki er vitað hvort það séu endanlegu afurðaverðin sem eru á markaðnum erlendis. Til að útiloka allan misskilning þá er þessi umfjöllun ekki dómur á rekstur íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi sem mörg eru að standa sig vel í rekstrinum. Aðeins er verið að varpa fram þeirri spurningu, hvort verðin á afurðunum sé rétt. Það er mitt verkefni að geta sagt það við mína umbjóðendur að svo sé. Í dag get ég það ekki. Það er því mjög brýnt að allir þeir sem koma að verðmyndun á fiski á Íslandi taki höndum samann og safni upplýsingu til að hægt sé að skilja verðmun á fiski hér og annarsstaðar Ef skýringarnar eru eðlilegar þá er allavega búið að hreinsa andrúmsloftið. Frjálst fiskverð er auðvita loka takmarkið. Ég öfunda norska sjómenn að geta farið inn á eina netsíðu hjá norskum fiskmarkaði og séð meðalverð á hundruðaþúsundum tonna sem landað hefur verið í Noregi af loðnu og makríl.
Þó svo að ég sitji í Úrskurðarnefnd og hef því aðgang að upplýsingum þar, þá samt sem áður get ég ekki skilið verðlagningu á uppsjávarfiski. Útgerðir verða að átta sig á því að þetta er ekki þeirra einkamál. Sjómenn, og þjóðin öll, eiga skýlausa kröfu á að þessi mál verði útskýrð. Ef stjórnendur útgerðanna eru að gefa afurðirnar frá sér vegna lélegrar sölumennsku verða þeir stjórnendur að víkja.
Það er efnahagslegt skemmdaverk að gefa frá okkur sjávarafurðirnar á miklu lægri verðum en nágrannaþjóðirnar eru að fá, ef sú er raunin.
Mig langar til að skilja og fá skýringar fyrir hönd minna umbjóðenda hjá VM.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Úrskurður mönnunarnefndar um fækkun vélstjóra á fiskiskipum felldur úr gildi.

Þann 21. nóvember s.l. kom úrskurður frá Innanríkisráðuneytinu í kæru VM vegna ákvörðunar mönnunarnefndar skipa um fækkun vélstjóra á Brimnesi RE-027 úr þremur í tvo, þar sem úrskurður nefndarinnar er felldur úr gildi.

Með þessari niðurstöðu er það von VM að valdbeiting formanns mönnunarnefndar, með þrýstingi frá fulltrúum LÍÚ í nefndinni, sé lokið. Þarna hafa verið viðhöfð vinnubrögð sem eru með ólíkindum, öllum staðreyndum og rökum ýtt út af borðinu og allt samþykkt sem LÍÚ hefur viljað.

VM mun fara fram á það að öll mál er varðar frávik frá mönnun fiskiskipa, sem nefndin hefur heimilað verði tekin upp og ef ástæða er til felld úr gildi. Þetta er búið að standa lengi yfir eða frá 2007 og fara meðal annars til umboðsmanns Alþingis til að kalla eftir kæruaðild VM fyrir hönd sinna umbjóðenda, sem ráðuneytið úrskurðaði líka um að VM hafi.
Mönnun vélstjóra á skipum er samkvæmt lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, Í 12. gr. er kveðið á um í lið c. 3., að á skipi með vélarafl yfir 1800 kW skuli vera yfirvélstjóri, 1. vélstjóri og undirvélstjóri.

Það hefur verið erfitt að sitja undir málflutningi LÍÚ og þeirri afbökun á staðreyndum sem þeir hafa sett fram. Í málflutningi LÍÚ hefur ítrekað verið haldið á lofti þeirri hugmyndafræði að ef virkt aðvörunarkerfi sé í vélarúmi, þá sé það vaktfrítt þó svo vélstjórar gangi vaktir allan sólahringinn.

VM hefur verið opið fyrir því að taka upp viðræður um að mönnun fiskiskipa fari frekar eftir búnaði og verkefnum skipa, en heildarafli aðalvélar. Sú umræða verður þá að vera á vitrænum nótum og út frá staðreyndum. Við áttum tvo fundi með LÍÚ um þessi mál 2008 en síðan hefur ekki orðið framhald á þessum viðræðum t.d. vegna stöðu þjóðmála og annarra verkefna.

Ef takast á að ljúka þeirri vinnu verður að taka tillit til margra ólíkra þátta sem getur varðað mismunandi tækjabúnað í viðkomandi skipi. Það getur t.d. verið mjög ólík mönnunarþörf vélstjóra milli skipa þó þau séu jafn stór og með svipaðan búnað, hvort skipið er nýtt eða 25 ára eða eldra og o.sv.frv.

Annað mál sem einnig er verið að bíða eftir, varðandi mönnun skipa, er reglugerð um framdrifsafl skipa sem Siglingarstofnun úrskurðaði um í fyrra, þar sem allt afl sem hægt er að setja inn á skrúfu skal teljast framdrifsafl skips.

Þegar sú reglugerð kemur munu kröfur um réttindi aukast á nokkrum skipum sem eru eingöngu með afl aðalvélar skráð sem framdrifsafl í dag.

 

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM

 


Afnotakerfi veiðiheimilda, þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfi.

Pistill um kvótamál

Hvert stórmálið tekur við af öðru þessa dagana þar sem þörf er á að ná sáttum og einingu um niðurstöður sem allra fyrst. Í stjórnarsáttmála núverandi stjórnarflokka er boðuð breyting á lögum um stjórn fiskveiða með svokallaðri fyrningarleið. Farin var sú leið að sjávarútvegsráðherra skipaði starfshóp hagsmunaaðila til að reyna að ná sáttum um hinar ýmsu breytingar sem hefur verið kallað eftir í mörg ár af ýmsum í þjóðfélaginu. Starfshópnum er ætlað að skilgreina helstu ágreiningefni sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim, setja að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta, þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar. Göfugt markmið að vinna að og ná sátt um. Frá því að starfshópurinn hóf störf hefur lítill tími gefist til vinnu í honum vegna stöðugrar Icesave umræðu á þingi, auk þess sem fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ mættu ekki á fundi starfshópsins vegna ótímabærra aðgerða sjávarútvegsráðherra á stjórn fiskveiða að þeirra sögn. LÍÚ hefur auk þess sett á oddinn að fyrirhuguð fyrningarleið verði dregin til baka. Persónulega get ég tekið undir með útvegsmönnum um að á meðan fyrningarleiðin er ekki útfærð að neinu marki, þannig að hægt sé að átta sig á framkvæmd hennar þá skapi hún óvissu. Það eina sem sett hefur verið fram er að afskrifa skuli úthlutaðar aflaheimildir um 5% á ári næstu tuttugu árin en hins vegar ekkert sagt til um hvernig framkvæmdin verði endanlega útfærð. Kalla verður eftir endanlegri útfærslu á hinni svokölluðu fyrningarleið frá stjórnarflokkunum, til að eyða óvissunni varðandi hana. Hún getur svo komið inn sem ein af fjölmörgum hugmyndum sem starfshópurinn mun fjalla um. LÍÚ verður einnig að láta af hroka varðandi eignarhald á fiskinum í sjónum sem einstaka útgerðamenn eru með mikla þráhyggju um að sé þeirra eign. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gera ýmsar breytingar á stjórn fiskveiða á meðan nefndin starfar eru mjög vanhugsaðar. Aukning á veiðiheimildum skötusels um 2000 tonn, sem er um 80% aukning á útgefnum veiðiheimildum samkvæmt vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, er alvarlegt mál sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar, vegna ímyndar okkar og markaðsmála erlendis. Hvalveiðarnar eru engin áhætta miðað við afleiðingarnar sem þessi ákvörðun getur haft. Hjá verslunum og umhverfissamtökum erlendis er mikilli athygli beint að því að fiskurinn sem þar er seldur sé úr sjálfbærum fiskistofnum samkvæmt vísindalegri ráðgjöf. Ef umhverfissamtök færu að blása þetta upp gæti það verið okkur mjög dýrkeypt. Öll vinna í markaðssetningu getur verið unnin fyrir gíg, umhverfismerkingar eins og hið nýja umhverfismerki Fiskifélags Íslands, merki íslensks sjávarútvegs, um ábyrgar fiskveiðar geta orðið marklausar. Merkið var þróað til að styðja markaðsstarf íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Hvar eru umhverfissinnarnir núna þegar farið er svona mikið fram úr ráðgjöf vísindamanna?Mikilvægt er að átta sig á því í upphafi, að það verður ekki skipt um kerfi á einni nóttu. Vinda þarf ofan af gamla kerfinu og hreinsa út úr því allar gömlu syndirnar og skuldirnar. Til að vel takist til verða margir aðilar sem hafa tjáð sig um þessi mál, að átta sig á því að þetta er ekki ótakmörkuð auðlind. Það mun ekki verða hægt að gera öllum til hæfis og það geta ekki allir fengið aðgang að fiskimiðunum sem það vilja. Þessa staðreynd verðum við að fara að viðurkenna, vandamál verða ekki leyst nema viðurkenna vandann og horfa á staðreyndirnar. Þar sem alltaf verður ósætti um hverjir skuli hafa aflaheimildir er það hinsvegar grundvallaratriði, til að tryggja rekstrargrundvöll og öryggi greinarinnar, að halda þeim fyrirtækjum sem til eru í dag í rekstri að stórum hluta, þar sem kunnáttan og reynslan er til staðar til að reka sjávarútvegsfyrirtæki. Vegna breyttra atvinnuhátta verður þjóðfélagið að aðlaga sig að því að það er ekki grundvöllur að tryggja öllum sjávarplássum atvinnuuppbyggingu með arðbærum sjávarútvegi með þeim veiðiheimildum sem eru til skiptanna. Arðsamur sjávarútvegur verður ekki rekinn með strandveiðum á smábátum eða sem atvinnubótarvinna. Að mínu viti þarf stefnumótum í byggðarmálum að vera til hliðsjónar og viðurkenning á því að við munum ekki geta haldið öllum núverandi byggðarlögum í byggð með sjávarútvegi sem á að skila arði.

 


Sjómannaafslátturinn.

Grein birt í Morgunblaðinu janúar 2010

Í þeim efnahagshamförum sem ganga yfir okkur núna, þótti stjórnvöldum að nú væri rétti tíminn til að afnema sjómannaafsláttinn. Sjómannaafslátturinn hefur verið talsvert bitbein manna á milli lengi, en hann hef ég frekar viljað kalla fjarvistaálag til sjós eða dagpeninga vegna fjarveru.

Í þjóðfélagsumræðunni um uppbyggingu samfélagsins, er horft til þess að byggja hér upp fyrirmyndarsamfélag með skandinavískt velferðamódel að leiðarljósi. Stjórnvöld ítreka hvaðan fyrirmyndin að skattabreytingunum kemur, þar sem auka á jöfnuð í kerfinu og fleira. Mig langar að varpa hér fram spurningu, hvort við ætlum strax að byrja á einhverjum sérleiðum eins og venjulega, að taka það sem hentar, sleppa því sem okkur finnst ekki henta og enda svo með séríslenskt afbrigði sem ekki virkar. Inni í hinu skandinavíska skattakerfi sem við vorum að aðlaga okkur að með síðustu breytingum eru eftirfarandi skattaafslættir til sjómanna:

Svíþjóð

Þar er sjómannaafsláttur ákvarðaður skv. lögum nr. 764/2007, sbr. l. nr. 282/1973.Afslátturinn er 35.000 skr. í strandsiglingum og 36.000 skr. í millilandasiglingum og afslátturinn reiknast af tekjuskattstofni ársins.

Svíþjóð: 36.000 skr.= 634.000 ikr. mv. gengi 17,6.

Sjómenn eiga jafnframt rétt á sérstakri skattalækkun sem nemur 9.000 skr. í strandsiglingum og 14.000 skr. í millilandasiglingum. Ívilnunin dregst frá reiknuðum tekjuskatti.

Noregur

Þar var verið að hækka sjómannaafsláttinn með fjárlagafrumvarpinu 2010.150.000 nkr. fyrir bæði strand- og millilandasiglingar.

Tekjuskatturinn er 30% af skattskyldum tekjum, umfram 150.000 nkr. Tekjur sjómanna upp að 150.000 nkr. eru skattfrjálsar.

Noregur: 150.000 nkr. = 3.255.000 ikr. (frá og með 2010) mv. gengi 21,7.

Danmörk

Sjómannaafsláttur danskra sjómanna gildir um lögskráða sjómenn. Þeir eiga rétt á 190 dkr. frádrætti fyrir hvern byrjaðan dag á sjó í veiðiferðum sem standa yfir í a.m.k. 12 klst.

Afslátturinn er að hámarki 41.800 dkr. yfir almanaksárið og reiknast af tekjuskattstofni ársins.

Danmörk: 41.800 dkr. = 1.033.000 ikr. mv. gengi 24,7.

Færeyjar

Þar er fiskimannafrádráttur um 15% af tekjum fyrir skatta eða að hámarki 75.000 dkr. fyrir almanaksárið. Tekjur sjómanna upp að 75.000 dkr. eru skattfrjálsar.

Færeyjar: 75.000 dkr. = 1.852.500 ikr. mv. gengi 24,7.

Hinsvegar á Íslandi er fyrirkomulagið eftirfarandi

Þeir sem fá greidd laun fyrir sjómannsstörf á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, eiga rétt á sjómannaafslætti.

Sjómannaafsláttur á tekjuárinu 2009 er 987 krónur á dag eða 360.255 kr. á ári, miðað við fleiri en 245 daga á sjó. Afslátturinn er dreginn frá reiknuðum tekjuskatti, áður en persónuafslátturinn er dreginn frá.

Ísland: 360.255 kr.

Sjómannafslátturinn er dreginn af með ólíkum hætti á Norðurlöndunum, en almennt er hann reiknaður af tekjuskattstofni ársins eða reiknuðum tekjuskatti. Þetta eru meginreglurnar en nákvæm útfærsla byggir auðvitað á skattaframkvæmd hvers ríkis og ber að hafa fyrirvara um það við þessar tölur.

Ég ætla ekki að fjölyrða hér um ástæðu þess að þessar þjóðir og margar aðrar telja eðlilegt að hafa þessi frávik á skattheimtu á þessar stéttir hjá sér. Það hlýtur að vera ástæða og fullkomlega eðlileg rök fyrir því eins og fram kemur í dæmunum hér á undan, þar sem hinn svokallaði íslenski sjómannaafsláttur stendur varla undir nafni í samanburðinum.

Ein af ástæðum þess að menn töldu sig geta gert aðför að sjómannaafslættinum nú, er staða íslensku krónunnar. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann, til að sjá að þegar gengi krónunnar var sem sterkast var orðið erfitt að fá vana og góða menn á fiskiskipaflotann. Starfsmannaveltan var orðin mjög mikil, sem er jafn bagalegt fyrir afkomu sjávarútvegsins eins og aðra atvinnustarfsemi, þar sem sífellt þarf að vera að þjálfa fólk í störfin.

Við Íslendingar erum eyþjóð í miðju Atlashafi, eigum ekkert kaupskip skráð hér á landi og aðeins 6 kaupskip eru fullmönnuð íslenskum áhöfnum. Þarna fórum við íslenska sérleið sem hefur skilað okkur þessari stöðu. Undanfarinn áratug hefur verið stanslaus varnarbarátta við að halda þessum störfum. Afnám sjómannaafsláttarins mun ganga endanlega frá íslenskri farmannastétt. Danir sem hafa aðlagað sig að alþjóðlegri samkeppni í siglingum eru að flytja um 10% alls þess sem flutt er með skipum í heiminum. Þetta er gífurlega mikilvæg atvinnugrein fyrir þá sem er að skapa um 15% af vergri þjóðarframleiðslu og um 100.000 störf. Danir hafa kynnt þetta með hugtakinu: ”Det Blå Danmark” eða danski sjóiðnaðurinn. Hægt er að kynna sér málið á www.worldcareers.dk.

Við erum búin að tapa kaupskipaflotanum vegna tregðu okkar til að taka þátt í alþjóðlegri skipaskráningu. Aðrar þjóðir hafa gripið til aðgerða til að standa við bakið á þessum atvinnurekstri, til að tapa honum ekki úr landi.

Teljum við okkur eitthvað heilagri en aðrar Norðurlandaþjóðir og hafa efni á  að þurfum ekki að efla þessa atvinnugrein?

Íslensku skipafélögin voru að gera það mjög gott í flutningum, áður en þau voru tekin yfir og rænd innan frá eins og mörg önnur fyrirtæki. Nú erum við að leita að tækifærum í atvinnuuppbyggingu, þarna eru ómæld tækifæri ef rétt er að staðið og getur skapað mörg störf bæði til sjós og lands og miklar tekjur. VM - Félagi vélstjóra og málmtæknimanna telur afnám sjómannaafsláttarins aðför að launakjörum sjómanna.

Nánari upplýsingar um sjómannaafsláttinn er að finna á heimasíðu VM www.vm.is

 

Guðmundur Ragnarsson,

formaður VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband