Færsluflokkur: Framboð til formanns VM

Ágæti félagsmaður

Þegar ég tók við sem fyrsti kjörni formaður VM, var félagið tæplega tveggja ára og þá óþekkt stærð. Frá þeim tíma hefur okkur tekist að gera VM að öflugu og áberandi stéttarfélagi sem hlustað er á.

Það er mér mikil áskorun og ég hef óbilandi vilja til að halda áfram að byggja félagið upp og gera það enn öflugra. Reynsla mín er orðin mikil og ég vil fá að nýta hana áfram fyrir félagsmenn.

Kjósum
Guðmund Ragnarsson sem formann VM


Formanskjör VM 2018

Ágæti félagsmaður VM,

hér á eftir kemur upptalning á þeim fjölmörgu málum og verkefnum sem ég hef haft frumkvæði að sem formaður að koma í framkvæmd og vill fá umboð þitt til að halda áfram með.  

  • Ég hafði frumkvæði að því að koma á einum besta sjúkrasjóði stéttarfélaga
              
    100% laun að 900.000 kr.     Sjúkraíbúðir í Reykjavík og Akureyri.
  • Ég hafði frumkvæði að uppbyggingu orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn VM
              Fjölgun íbúða, ný sumarhús og nýtt tjaldsvæði.
  • Ég hef verið leiðandi í erfiðum kjarasamningum
  • Ég hef náð fram breytingum í kjarasamningum VM
  • Ég hef haft frumkvæði að því að stoppa undirboð á vinnumarkaði
  • Ég hef verið virkastur í umræðunni um verðlagsmál á fiski
  • Ég hef beitt mér í málefnum lífeyrissjóðakerfisins
  • Ég hef tryggt að þjónusta við félagsmenn sé til fyrirmyndar
  • Ég hef beitt mér fyrir umræðu um breytingu á vinnutíma
  • Ég hef verið virkur í pistla- og greinaskrifum til að koma okkar skoðunum á framfæri
  • Ég hafði frumkvæði að því að efla verkfallssjóð VM
  • Ég hafði frumkvæði að hækkun fræðslu- og endurmenntunarstyrkja 

Ágæti félagsmaður,
ég kalla eftir stuðningi þínum til að halda áfram sem formaður VM.
Ég hvet þig til að taka þátt í kosningunni og greiða mér atkvæði þitt, þá munt þú hafa áhrif á framtíð félagsins.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.

Nánari upplýsingar um mig er á: gumrag.blog.is og www.vm.is


Framboð til formanns VM

Ágæti félagsmaður,

þegar ég tók við sem fyrsti kjörni formaður VM, var félagið tæplega tveggja ára og þá óþekkt stærð. Frá þeim tíma hefur okkur tekist að gera VM að öflugu og áberandi stéttarfélagi sem hlustað er á. Við höfum áunnið okkur traust með málefnalegri framsetningu.
Það sem VM setur fram og hefur skoðun á er vaktað. Við höfum verið frumleg í að fara fram með nýjar hugmyndir í okkar kjaramálum og náð árangri í mörgum þeirra. Með kjararáðstefnunum höfum við tekið fyrir og rætt nýjar leiðir sem við viljum innleiða til að bæta kjör og stytta vinnutíma hjá okkar félagsmönnum. Atvinnurekendur hlusta á rök okkar og leita til félagsins við lausn mála. VM er með um tuttugu kjara- og vinnustaðasamninga sem eðlilega kallar á mikla vinnu hjá félaginu við endurnýjun og vinnslu þeirra. Við höfum tekið þátt í og leitt margar erfiðar kjaradeilur. Þrátt fyrir mikla ólgu í okkar samfélagi, frá því ég tók við sem formaður, hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu félagsins og að auka réttindi félagsmanna.

Flest eldri orlofshús félagsins hafa verið tekin í gegn, ný hús byggð á Laugarvatni og íbúðum fjölgað í Reykjavík og á Akureyri. Stefnt er að því að fjölga íbúðum í Reykjavík fyrir félagsmenn af landsbyggðinni. Mér tókst að semja við Ungmennafélag Laugdæla um skógarlandsvæði við hlið orlofssvæðis VM á Laugarvatni og þar hefur verið byggt upp eitt flottasta tjaldsvæði landsins. Unnið er markvisst að frekari uppbyggingu orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn og eru nokkur verkefni í undirbúningsvinnu.

Við breyttum dagpeningagreiðslum í sjúkrasjóði VM þannig að hann er sennilega með bestu réttindi, sem boðið er upp á í dag, hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga og er ég mjög stoltur af því. Einnig voru réttindi eldri félagsmanna aukin umtalsvert í sjúkrasjóðnum.
Styrkir úr fræðslusjóðnum voru hækkaðir verulega, enda er endurmenntun að verða sífellt mikilvægari á vinnumarkaðnum.
Verkfallssjóður félagsins var stækkaður og gerður sýnilegri í þeim tilgangi að viðsemjendur okkar séu meðvitaðir um það að við höfum aflið til að taka slaginn gerist þess þörf.
Þjónusta félagsins við félagsmenn er eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á og telst það til undantekninga að ekki sé starfsmaður við á skrifstofunni til að sinna erindum félagsmanna. Frammistaða og þjónusta starfsmanna VM er til  fyrirmyndar og mjög góður starfsandi ríkir á skrifstofu félagsins. Stjórn félagsins hefur starfað af einhug um flest mál sem teknar hafa verið ákvarðanir um.

Á þeim tæpum tíu árum sem ég hef verið formaður hafa kjaramálin og ástandið í samfélaginu eftir hrun eðlilega tekið mikinn tíma. Ég hef samhliða beitt mér með greina- og pistlaskrifum til að koma skoðunum okkar og baráttumálum inn í umræðuna í samfélaginu.

Ég hef beitt mér í verðlagsmálum á fiski fyrir vélstjóra á fiskiskipum gegn SFS og stjórnvöldum á öllum sviðum. Nýja módelið um afurðaverðstengingu á bolfiski var mín hugmynd.

Við höfum sett fram hugmyndir um nýjar leiðir í kjaramálum og styttingu vinnutíma í okkar starfsgreinum í landi. Með samtölum, kynningum á hugmyndum okkar og góðum undirbúningi höfum við náð fram breytingum í kjarasamningum, til dæmis í orkugeiranum, farskipum, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnun og víðar.

Við höfum farið í margar erfiðar kjaraviðræður þar sem VM hefur verið í forystuhlutverki og samninganefndir félagsins sýnt sjálfstæði og kjark til að ljúka kjarasamningum.
Ég hef beitt mér af afli í málefnum erlendra starfsmanna bæði til að tryggja rétt þeirra og um leið að reyna að sporna við undirboðum í okkar greinum.

Ég hef sett fram gagnrýni á skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel að skipulagið sé farið að skaða okkur í að ná fram breytingum og bættum kjarabótum fyrir félagsmenn VM. Verði ekki reynt að taka á þessum málum sem fyrst, mun sundrungin veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar.  Hvort VM á að vera innan eða utan ASÍ, er mál sem þarfnast mikillar umræðu. Það er hinsvegar ljóst að áhrif VM til stefnumörkunnar í mörgum mikilvægum málefnum félagsmanna okkar yrði lítil sem engin ef við færum þar út. Það er vandséð hvernig stórt félag eins og VM eigi að láta aðra um að móta stefnuna í mörgum mikilvægum málum sem snerta okkar félagsmenn án þess að hafa neitt um það að segja.

Það eru mörg önnur mál, en þau sem talin eru hér upp að framan, sem ég hef beitt mér fyrir og vakið athygli á. Það er mér mikil áskorun og ég hef óbilandi vilja til að halda áfram að byggja félagið upp og gera það enn öflugra. Reynsla mín er orðin mikil og ég vil fá að nýta hana áfram fyrir félagsmenn. VM á að vera landsfélag allra í  vél- og málmtækni á Íslandi, og við ætlum að ná því fram. Það eru miklar áskoranir framundan í kjarasamningagerð á íslenskum vinnumarkaði sem VM er tilbúið að vera leiðandi í. Við verðum að finna nýjar leiðir til styttingar vinnutíma og hækkunar dagvinnulauna.
Niðurstaða verður að nást í verðlagsmálum á fiski, sem er grunnurinn að sátt um kjaramál vélstjóra á fiskiskipum.
Málefni lífeyriskerfisins er alltaf í umræðunni, þar eru margar áskoranir framundan sem við munum hafa skoðanir á eins og vilji félagsmanna VM segir til um.
Menntamálin eru að verða sífellt stærri málaflokkur sem þarf að sinna betur, þar þurfum við að setja meiri vinnu í að spyrna við fæti og stoppa þróun sem er að verða mjög ruglingsleg og tilviljanakennd, ef ekki á illa að fara í menntun okkar félagsmanna. 

Tilvitnun í loforð úr framboði mínu 2008.

„Ég mun beita mér fyrir því að félagið verði áberandi í allri þjóðfélagsumræðu varðandi málefni félagsmanna. Með þessu munum við skapa okkur sjálfstæði sem auka mun möguleika okkar á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og hafa áhrif. Sjálfstætt og áberandi félag skilar okkur mestu í allri kjarabaráttu. Þar þurfum við að sýna frumkvæði og áræðni til að ná auknum kjarabótum í framtíðinni. Einnig að fá aukna viðurkenningu á fagmennsku og mikilvægi okkar félagsmanna.“

Ég hef staðið við það sem ég lofaði, ég hef heiðarleikan að leiðarljósi og ég stend við það sem ég segi.

Ágæti félagsmaður,
ég kalla eftir stuðningi þínum til að halda áfram sem formaður VM.
Ég hvet þig til að taka þátt í kosningunni og greiða mér atkvæði þitt, þá munt þú hafa hrif á framtíð félagsins.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband