Mikilvægi dagpeninga sjúkrasjóða! - Grein í Tímarit VM 2013

Stjórn Styrktar- og sjúkrasjóðs VM ákvað að fara í breytingar á styrkjum og dagpeningum sjóðsins eftir að tryggingafræðileg úttekt var gerð á sjóðnum í september 2012.
Samhliða endurskipulagningu á fjármálum félagsins ákvað stjórn VM að lækka kostnaðarhlutdeild sjúkrasjóðs í rekstri félagsins úr 15 prósentum í 10 prósent. Var þetta gert með það í huga að sem mest af þeim fjármunum sem atvinnurekendur greiða inn í sjóðinn nýtist fyrir félagsmenn. Eitt prósent af launum eru miklir fjármunir sem okkur er treyst fyrir og við verðum að vera meðvituð um að þeir fari í það sem þeim er ætlað.
Til að hafa sem bestar upplýsingum um réttindi félagsmanna var ákveðið að gefa út handhægan bækling um réttindin og senda öllum félagsmönnum.
Sjúkrasjóðurinn er samtryggingarsjóður og á að vera gegnumstreymissjóður með takmarkaða sjóðasöfnun nema fyrir þær framtíðarskuldbindingar sem hann hefur samkvæmt reglum hans hverju sinni.  Mikilvægasta verkefnið sjóðsins eru sjúkradagpeningarnir fyrir þá félagsmenn sem verða fyrir slysi eða veikindum. Vegna þess fyrirkomulags sem hefur verið byggt upp í okkar kjarasamningum, þar sem einstaklingur verður launa og bótalaus í allt að sex mánuði frá því að hann fær lokagreiðslu frá atvinnurekanda, þar til hann fer inn í önnur úrræði við framfærslu. Verða dagpeningar sjúkrasjóðs að veita 100 prósent tryggingu meðan félagsmaðurinn er að fá greiðslur úr sjóðnum. Vegna þeirra miklu skuldbindinga sem almenningur er með í dag, lagði stjórn sjóðsins mest upp úr því að hækka dagpeningana. Með það í huga að einstaklingur geti staðið í skilum miðað við sín mánaðarlaun, með sínar skuldbindingar. Markmiðið er að félagsmaður sé ekki að safna upp skuldum meðan hann er að fá greiðslur úr sjúkrasjóði VM. 
Vissulega er það þannig að fæstir eru að hugsa um veikindi eða slys á meðan allt leikur í lyndi, það er eðlilegt. Því miður hefur þróunin verið þannig að öll umræða um sjúkrasjóðinn snýst um styrki. Allt svigrúm sjóðsins á að nýta í styrkina, enda voru þeir hækkaðir og nýjum bætt við í endurskoðuninni. Við þurfum hinsvegar að snúa umræðunni við um verkefni Sjúkrasjóðsins og hvað sé mikilvægasta verkefni hans. Það á að vera að tryggja félagsmönnum sem bestu dagpeningana þegar ógæfan dynur yfir vegna veikinda eða slysa. Það er mesta gæfufólkið sem aldrei þarf að nota dagpeninga Sjúkrasjóðsins. En með nýju reglunum hjá Sjúkrasjóði VM er þetta er ódýrasta tryggingin sem þú færð í dag til að tryggja fjárhagslega afkomu þína og þinnar fjölskyldu í sjúkrasjóði stéttarfélags.
Stjórn sjúkrasjóðsins ætlar að fara dýpra í hugmyndafræði tryggingafræðilegra skuldbindingar sjóðsins, með það að leiðarljósi að fá betri yfirsýn yfir hver sjóðasöfnun svona sjóðs þarf að vera. Með það í huga að hugsanlega eigi Sjúkra- og styrktarsjóður VM nægan uppsafnaðan sjóð til að hægt sé að reka sjóðinn sem næst á núlli og veita sem mestum fjármunum til félagsmanna.   


Eftir að hafa unnið í því að fara yfir fjármál Sjúkrasjóðs VM og borið saman hvað önnur stéttarfélög eru að gera, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að heildarsamtök eins og ASÍ verða að setja samræmdar reglur um meðferð þeirra miklu fjármuna sem okkur er treyst fyrir inn í sjúkrasjóðina. Þar á ég sérstaklega við, að hámark verði sett á kostnaðarhlutdeild sjúkrasjóða í rekstri félaganna.
VM er með þeim breytingum sem verið var að gera á dagpeningum og styrkjum Sjúkrasjóðs VM að sýna að við erum traustsins verðir með að koma þessu fjármunum óskertum til félagsmanna.  Fyrir mörgum árum fóru stéttarfélög að falbjóða sig til að ná sér í félagsmenn, með því að vera með t.d. lægri félagsgjöld og setja þak á félagsgjöldin. Til þess að geta þetta er notað ómælt fé úr sjúkrasjóðum í rekstur sumra félaga. Þeir fjármunir sem teknir eru af samningsbundnu framlagi til sjúkrasjóðsins í almennan rekstur fara eðlilega ekki til félagsmannanna. Samtök atvinnulífsins hafa bent á það að sum stéttarfélög séu orðin mjög gróf í rekstrarfé úr sjúkrasjóðunum. Það er ekki hægt að láta þetta viðgangast lengur og því verða félagsmenn að fá að vita hvernig í hlutunum liggur.
Ef verkalýðshreyfingin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm verður hún að sýna gott fordæmi í meðhöndlun þessara fjármuna sem eiga að vera fyrir félagsmenn, aðallega þegar reynir á vegna veikinda eða slysa þeim til framfærslu.
Ég hvet alla félagsmenn VM að gefa sér tíma í að skoða mikilvægi sjúkrasjóðsins og þá sérstaklega dagpeninganna vegna þeirra mikilvægu tryggingu sem þeir veita.
 Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband