Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Ég – Seðlabankinn – Samherji - Grein frá júní 2012

Aðför Samherja á mína persónu sem framkvæmd var á fundi félagsins með starfsmönnum þess á sjó 5. júní sl. sýnir best hvað menn eru tilbúnir að leggjast lágt til að gæta hagsmuna sinna. Á fundinum dreifðu þeir fjórum blöðum með tilvitnunum, slitnum úr samhengi, sem ég hef skrifað og haft hefur verið eftir mér í fjölmiðlum. Tilgangurinn er augljós, ekki voru þeir menn til að bjóða mér að koma og standa fyrir því sem ég hef sagt um verðlagsmál á fiski. Ég hefði mætt og stend við allt sem ég hef sagt, þar sem ég hef aðallega verið að setja fram spurningar og kallað eftir svörum. Þeir lögðu það á sig að kaupa samantekt á þessum ummælum mínum til að leggja fram. Ég hlít að líta á þetta sem hrós, ekki væru menn að leggja þetta allt á sig ef þeir gætu svarað því sem verið er að kalla eftir.

Ein af tilvitnunum er eftirfarandi:

 Grein wftir formanninn sem birtist í 3. tölublaði Tímarits VM um verðmyndun á fiski
sem út kom í október 2011.
Greinin bar heitið mikill munur á verði milli landa.

Þar ritar Guðmundur meðal annars:

,,Hærra verð til útlendinga,,
.... Íslenskar útgerðir ákvarða verð til sinna sjómanna einhliða. Áhafnir eru settar í þá stöðu að sætta sig við verðið til að halda starfi sín. Það er þröngur kostur, sjómönnum er annt um fjárhagslegt öryggi sitt og fjölskilna sinna...

Framkvæmdastóri LÍÚ viðurkenndi það sem þarna er sett fram í viðtali við Spegilinn hjá RÚV.

VM er gott stéttarfélag og leggur sig fram við að gæta hagsmuna félagsmanna sinna á öllum sviðum. Samherji eins og aðrir útgerðarmenn vita um þá miklu spennu sem sífellt ríkir um verðlagningu á fiski hér á landi. Ég sem formaður félagsins ber skylda til að reyna að minnka þá spennu með því að setja fram spurningar og kalla eftir svörum til að geta svarað mínum umbjóðendum. Meðan ekki er hægt að setjast niður og finna eðlilegar skýringar á verðmynduninni þá verður tortryggni. Ekki mun standa á mér að taka þátt í að útskýra verðmuninn eða grunninn fyrir mínum umbjóðendum um leið og eðlilegar skýringar koma fram. Grandi hefur stigið þetta skref, að fara í samanburð á verðmyndun hér, í Noregi og Færeyjum. VM er tilbúið að fara í þá vinnu með þeim. Þeir eiga hrós skilið fyrir fundinn sem þeir héldu með sínum sjómönnum um þessi mál og buðu stéttarfélögum sjómanna á.

Einn af eigendum Samherja, Kristján Vilhelmsson sendi mér samantektina sólahring eftir að fundurinn átti sér stað með þeim ummælum sem ég ætla að vitna í:

Auk þess þar sem þú sem formaður VM virðist vera mikil áhrifavaldur í rekstri Samherja hf um þessar mundir lét ég taka saman nokkrar tilvitnanir í skrif þín, ummæli og viðtöl úr  þáttum Ríkisútvarps/sjónvarps. Þessi samantekt lá einnig frammi á fundinum.

Hvernig Samherjamenn tengja rannsókn Seðlabanka Íslands á félaginu við formann VM er mjög langsótt og illskiljanlegt. Ég skrifaði grein um verðlagsmál á fiski í Tímarit VM í október 2011. Hún vakti athygli fjölmiðla sem fóru eitthvað að kafa í málin og það er mér alls óviðkomandi hvað fjölmiðlar hafa fyrir stafni. Samherjamenn sýna með þessu að allt verður lagt í sölurnar í hagsmunagæslunni. Þeir fara beint í manninn en ekki boltann, í kappleik með dómara fengju þeir rautt spjald og væru reknir útaf.

Sjálfsagt eru þeir vanir að spila leikinn þannig á sínum heimavelli, að þeir semja leikreglurnar og sjá um dómgæsluna líka.

Ég ætla að enda þetta með síðustu setningunni í fyrrnefndri grein sem virðist vera búinn að vald miklum pirring hjá mörgum.

Mig langar til að skilja og fá skýringar fyrir hönd minna umbjóðenda hjá VM.

Kv. Guðmundur Ragnarsson formaður VM

 


Mikilvægi dagpeninga sjúkrasjóða! - Grein í Tímarit VM 2013

Stjórn Styrktar- og sjúkrasjóðs VM ákvað að fara í breytingar á styrkjum og dagpeningum sjóðsins eftir að tryggingafræðileg úttekt var gerð á sjóðnum í september 2012.
Samhliða endurskipulagningu á fjármálum félagsins ákvað stjórn VM að lækka kostnaðarhlutdeild sjúkrasjóðs í rekstri félagsins úr 15 prósentum í 10 prósent. Var þetta gert með það í huga að sem mest af þeim fjármunum sem atvinnurekendur greiða inn í sjóðinn nýtist fyrir félagsmenn. Eitt prósent af launum eru miklir fjármunir sem okkur er treyst fyrir og við verðum að vera meðvituð um að þeir fari í það sem þeim er ætlað.
Til að hafa sem bestar upplýsingum um réttindi félagsmanna var ákveðið að gefa út handhægan bækling um réttindin og senda öllum félagsmönnum.
Sjúkrasjóðurinn er samtryggingarsjóður og á að vera gegnumstreymissjóður með takmarkaða sjóðasöfnun nema fyrir þær framtíðarskuldbindingar sem hann hefur samkvæmt reglum hans hverju sinni.  Mikilvægasta verkefnið sjóðsins eru sjúkradagpeningarnir fyrir þá félagsmenn sem verða fyrir slysi eða veikindum. Vegna þess fyrirkomulags sem hefur verið byggt upp í okkar kjarasamningum, þar sem einstaklingur verður launa og bótalaus í allt að sex mánuði frá því að hann fær lokagreiðslu frá atvinnurekanda, þar til hann fer inn í önnur úrræði við framfærslu. Verða dagpeningar sjúkrasjóðs að veita 100 prósent tryggingu meðan félagsmaðurinn er að fá greiðslur úr sjóðnum. Vegna þeirra miklu skuldbindinga sem almenningur er með í dag, lagði stjórn sjóðsins mest upp úr því að hækka dagpeningana. Með það í huga að einstaklingur geti staðið í skilum miðað við sín mánaðarlaun, með sínar skuldbindingar. Markmiðið er að félagsmaður sé ekki að safna upp skuldum meðan hann er að fá greiðslur úr sjúkrasjóði VM. 
Vissulega er það þannig að fæstir eru að hugsa um veikindi eða slys á meðan allt leikur í lyndi, það er eðlilegt. Því miður hefur þróunin verið þannig að öll umræða um sjúkrasjóðinn snýst um styrki. Allt svigrúm sjóðsins á að nýta í styrkina, enda voru þeir hækkaðir og nýjum bætt við í endurskoðuninni. Við þurfum hinsvegar að snúa umræðunni við um verkefni Sjúkrasjóðsins og hvað sé mikilvægasta verkefni hans. Það á að vera að tryggja félagsmönnum sem bestu dagpeningana þegar ógæfan dynur yfir vegna veikinda eða slysa. Það er mesta gæfufólkið sem aldrei þarf að nota dagpeninga Sjúkrasjóðsins. En með nýju reglunum hjá Sjúkrasjóði VM er þetta er ódýrasta tryggingin sem þú færð í dag til að tryggja fjárhagslega afkomu þína og þinnar fjölskyldu í sjúkrasjóði stéttarfélags.
Stjórn sjúkrasjóðsins ætlar að fara dýpra í hugmyndafræði tryggingafræðilegra skuldbindingar sjóðsins, með það að leiðarljósi að fá betri yfirsýn yfir hver sjóðasöfnun svona sjóðs þarf að vera. Með það í huga að hugsanlega eigi Sjúkra- og styrktarsjóður VM nægan uppsafnaðan sjóð til að hægt sé að reka sjóðinn sem næst á núlli og veita sem mestum fjármunum til félagsmanna.   


Eftir að hafa unnið í því að fara yfir fjármál Sjúkrasjóðs VM og borið saman hvað önnur stéttarfélög eru að gera, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að heildarsamtök eins og ASÍ verða að setja samræmdar reglur um meðferð þeirra miklu fjármuna sem okkur er treyst fyrir inn í sjúkrasjóðina. Þar á ég sérstaklega við, að hámark verði sett á kostnaðarhlutdeild sjúkrasjóða í rekstri félaganna.
VM er með þeim breytingum sem verið var að gera á dagpeningum og styrkjum Sjúkrasjóðs VM að sýna að við erum traustsins verðir með að koma þessu fjármunum óskertum til félagsmanna.  Fyrir mörgum árum fóru stéttarfélög að falbjóða sig til að ná sér í félagsmenn, með því að vera með t.d. lægri félagsgjöld og setja þak á félagsgjöldin. Til þess að geta þetta er notað ómælt fé úr sjúkrasjóðum í rekstur sumra félaga. Þeir fjármunir sem teknir eru af samningsbundnu framlagi til sjúkrasjóðsins í almennan rekstur fara eðlilega ekki til félagsmannanna. Samtök atvinnulífsins hafa bent á það að sum stéttarfélög séu orðin mjög gróf í rekstrarfé úr sjúkrasjóðunum. Það er ekki hægt að láta þetta viðgangast lengur og því verða félagsmenn að fá að vita hvernig í hlutunum liggur.
Ef verkalýðshreyfingin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm verður hún að sýna gott fordæmi í meðhöndlun þessara fjármuna sem eiga að vera fyrir félagsmenn, aðallega þegar reynir á vegna veikinda eða slysa þeim til framfærslu.
Ég hvet alla félagsmenn VM að gefa sér tíma í að skoða mikilvægi sjúkrasjóðsins og þá sérstaklega dagpeninganna vegna þeirra mikilvægu tryggingu sem þeir veita.
 Guðmundur Ragnarsson, formaður VM


Samfélag á leið í uppgjör - Grein frá mars 2015


    Nú við endurnýjun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru gömlu plöturnar spilaðar um óðaverðbólguna sem kemur ef almennt launafólk fær einhverja hækkun á sín laun. Eins og hlutirnir hafa þróast frá því vopnahlé  var gert á almenna vinnumarkaðnum fyrir rúmu ári með aðfarasamningnum, hafa öfgarnar í samfélaginu komið betur fram og orðið skýrari. 
   Sú mikla harka sem er að byggjast upp hjá almennum launþegum þessa lands á sér miklu dýpri orsakir en rökræða um krónur og aura. Allir innviði samfélagsins eru að hrynja og almenningur er að gefast upp, þrælarnir geta ekki meir.
Dagvinnulaunataxtar hafa aldrei dugað til framfærslu og nú eru heildarlaunin hætt að duga þrátt fyrir ómælda eftirvinnu. Það er eitt af mörgu sem er að magna upp ástandið sem við erum að sigla inn í.
   Við þurfum að horfast í augu við  raunveruleikann  og spyrja hverskonar samfélag við höfum byggt upp. Félagslegt íbúðakerfi er ekki til, heilbrigðiskerfið komið að þrotum þó við borgum sjálf um tuttugu prósent úr eigin vasa fyrir utan skattana sem í það fara. Menntakerfið stendur ekki undir nafni og við erum með fjársveltar stofnanir sem geta ekki sinnt hlutverki sínu við að reka nútíma samfélag. Gamla fólkið sem byggði upp þetta samfélag höfum við sent út á guð og gaddinn. Okkur öllum og samfélaginu til ævarandi skammar. Þetta er eitt af því sem er að valda hörkunni á vinnumarkaðnum, samfélagið er ekkert annað en umbúðir án innihalds.
   Launafólk hefur engu að tapa
   Við verðum líka að átta okkur á þeim kynslóðarskiptum sem eru að eiga sér stað í samfélaginu.  Unga fólkið okkar hefur aðra sýn á lífið. Það vill eiga líf eftir vinnu og kallar á ásættanleg dagvinnulaun. Staða þeirra sem hafa komið út á vinnumarkaðinn síðustu ár og þeirra sem fóru illa út úr hruninu um að komast í öruggt húsnæði, með kaupum eða leigu gengur ekki upp. Við höfum ekkert félagslegt húsnæðiskerfi sem lausn fyrir þetta fólk. Lönd Norður Evrópu og Skandinavíu sem við berum okkur alltaf saman við hafa tuttugu og fimm til fimmtíu og fimm prósent af sínum íbúðamarkaði með einhverskonar lausnum fyrir þá sem lægstu tekjurnar hafa og sem val fyrir aðra. Við höfum ekkert til að bjóða nema lána eða leigu okur sem venjulegt launafólk ræður ekki við. Þetta er líka ein af ástæðum þess að launafólk hefur engu að tapa og er tilbúið að taka harðan slag um bætt kjör og aðgerðir frá stjórnvöldum um breytingar.
Hefur einhver reiknað út hvað meðalfjölskyldan þarf að hafa í tekjur til að kaupa eða leigja á því fermetraverði sem er í boði og verið er að byggja á höfuðborgasvæðinu í dag? Hefur samfélagið áttað sig á því hvaða tekju einstaklingar og fjölskyldur þurfa að hafa til að komast í gegnum greiðslumat?

 

Róttækar breytingar og ný hugsun
Við erum með breytta pólitík þar sem ekki er hikað við að lofa og blekkja almenning og svíkja gerða samninga. Með þessu hefur póltíkin útilokað sig frá skynsamlegum þríhliða lausnum við endurnýjun kjarasamning á almennum vinnumarkaði. Við erum með gjaldmiðil sem alltaf er hægt að nota til að skerða kaupmátt launa eftir óábyrgar ákvarðanir. Hver hefur trú á að einhver varanlegur stöðuleiki sé kominn á og lág verðbólga komin til með að vera? Það á eftir að leysa fjármagnshöftin með þeim afleiðingum sem því fylgir, hver sem þau verða.
Það á að loka á hugsanlegar leiðir út úr mörgum af okkar vandamálum með því að slíta viðræðum við Evrópusambandið án þess að þjóðin fái að sjá þann valkost. Það eina sem hefur breyst frá Dönsku einokunarverslunin er að við erum ekki skikkuð til að versla í ákveðnum verslununum. Auðvita vill þessi mafía halda sínu og hinu séríslenska samráðsumhverfi.
Um mörg af þeim atriðum sem ég hef talið upp snýst það uppgjör sem framundan er í samfélaginu í komandi kjarasamningum á árinu. Mótsagnirnar og hvernig við höfum klúðrað uppbyggingu félagslegra innviða samfélagsins eru að koma í andlitið á okkur.
Í raun þurfa laun að vera umtalsvert hærri hér á landi í samanburði við þau lönd sem við berum okkur saman við vegna þess að innviðirnir eru ekki til staðar til að auka jöfnuð.
Var einhver að tala um að reyna að koma á stöðuleika í þessu samfélagi?
Þeir sem sogað hafa til sín ómældan auð af verðmætasköpun samfélagsins  verða að fara að gefa eftir í græðginni og hjálpa til við að koma á jöfnuði í samfélagið, ef ekki endar hér allt í átökum um aukinn jöfnuð.
Það eru ekki bara læknar sem eru eftirsóttir í öðrum löndum. Almennt launafólk er komið upp að vegg og hefur engu að tapa. Formaður Samtaka atvinnulífsins er með nóg sætaframboð til að koma okkur í burtu ef ekki verður einhver breyting.
Við þurfum rótækar breytingar og nýja hugsun ef ekki á illa að fara.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband